Línur lagðar um stjórnsýsluúttektir ársins 2014

Á tímabilinu 2013‒15 beinast stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar aðallega að málaflokkum sem heyra undir fjögur stærstu ráðuneytin. Meðal fyrirhugaðra verkefna á næsta ári eru úttektir á Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins, sendiráðum, Útlendingastofnun og samningamálum ríkisins. Þetta kemur fram í starfsáætlun stjórnsýslusviðs stofnunarinnar.Stjórnsýsluendurskoðun miðar að því að kanna meðferð og nýtingu almannafjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni er gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja ríksins. Jafnframt er kannað hvort viðkomandi starfsemi er í samræmi við lög og reglur og skilar þeim árangri sem að er stefnt. Á tímabilinu 2013‒15 beinast stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar aðallega að málaflokkum sem heyra undir velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og innanríkisráðuneytið. Ástæðan er sú að langstærstur hluti ríkisútgjalda er vegna þessara fjögurra ráðuneyta. Málefni annarra ráðuneyta verða þó einnig til skoðunar eftir því sem þörf þykir. Megináhersla verður lögð á hefðbundnar stjórnsýsluúttektir á einstökum stofnunum, verkefnum og málaflokkum. Meðal fyrirhugaðra verkefna á næsta ári eru úttekir á Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins, reiknilíkani og rekstrarstöðu framhaldsskóla, sendiráðum Íslands, Útlendingastofnun, Lækningaminjasafni Íslands, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og samningamálum ríkisins.

Á stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar starfa nú átta manns en starfsmenn voru tíu í upphafi ársins. Sviðið lauk samtals 27 opinberum skýrslum árið 2013 sem er svipaður fjöldi og síðustu ár. Í þessum skýrslum eru settar fram fjölmargar ábendingar til stjórnvalda og stofnana um úrbætur. Á síðasta ári gerðu erlendir sérfræðingar svokallaða jafningjaúttekt á vinnubrögðum stjórnsýslusviðs og var meginniðurstaðan sú að þau væru í samræmi við alþjóðlega staðla og að starfsemin einkenndist af skilvirkni, metnaði og umbótavilja. Sviðsstjóri stjórnsýslusviðs er Kristín Kalmansdóttir viðskiptafræðingur.