Línur lagðar um stjórnsýsluúttektir næstu ára

Ríkisendurskoðun mun leggja áherslu á vandamál stjórnvalda og stofnana vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs í stjórnsýsluúttektum sínum á næstu tveimur árum.Niðurskurður og skipulagsbreytingar í ríkiskerfinu setja mark sitt á starfsáætlun Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun fyrir tímabilið frá hausti 2010 til hausts 2012. Stjórnsýsluendurskoðun er eitt meginverkefni stofnunarinnar og felst í því að kanna meðferð og nýtingu á almannafé. 13 af samtals 49 starfsmönnum hennar sinna þessu verkefni.
Minnkandi tekjur ríkisins valda því að draga verður saman í rekstri þess og endurskipuleggja verkefni og þjónustu. Í stjórnsýsluúttektum á tímabilinu verður lögð sérstök áhersla á þau vandamál sem ráðuneyti og stofnanir standa frammi fyrir vegna þessa. Jafnframt verður hugað að leiðum til að efla sparnað og fylgst með því hvort verkefni séu unnin í samræmi við lög og reglur. Úttektum verður beint í stuttar og afmarkarðar skýrslur og fremur lögð áhersla á tiltekin afmörkuð vandamál en heila málaflokka eða stofnanir.
Vinnubrögð munu einkennast af svokölluðu samtímaeftirliti og sveigjanleika í starfi. Með samtímaeftirliti er átt við að gerð er úttekt á verkefnum meðan þeim vindur fram en ekki eftir að þeim er lokið. Athyglinni verður ekki beint að fyrirfram ákveðnum ráðuneytum eða málaflokkum heldur þeim verkefnum sem mest eru aðkallandi hverju sinni.
Ríkisendurskoðun sækir heimild sína til stjórnsýsluendurskoðunar í 9. gr. laga um stofnunina. Þar segir að þessi tegund endurskoðunar felist í því að „kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í þessu sambandi.“ Það sem af er árinu hefur stjórnsýslusvið Ríkisendurskoðunar birt samtals 17 skýrslur um niðurstöður úttekta og eru þær allar birtar hér á vefnum.