Lítið hefur miðað við að bæta innheimtu dómsekta

Ríkisendurskoðun lýsir áhyggjum af því hve illa gengur að innheimta dómsektir vegna skattalagabrota hér á landi. Í þessu efni hefur lítið miðað á síðustu árum. Stofnunin telur að rýmka eigi heimildir stjórnvalda til innheimtuaðgerða en takmarka möguleika einstaklinga á að fullnusta sekt sína með samfélagsþjónustu.Í júní 2009 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um hvernig staðið hefði verið að því að innheimta sektir og sakarkostnað sem dómstólar hér á landi úrskurðuðu á árunum 2000–2006. Meginniðurstaða skýrslunnar var sú að mjög lítill hluti dómsekta umfram 8 milljónir króna fékkst greiddur. Í öllum tilvikum var um að ræða sektir vegna skattalagabrota og algengast var að sektarþolar gerðu þær upp með svokallaðri samfélagsþjónustu. Heimilt er samkvæmt lögum að fullnusta vararefsingu fésekta (fangelsi) með slíkri þjónustu. Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun nokkrum ábendingum til stjórnvalda sem miðuðu einkum að því að efla innheimtu sekta.
Helmingi ábendinganna verið hrint í framkvæmd
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur u.þ.b. helmingi þessara ábendinga verið hrint í framkvæmd. Lítið hefur hins vegar miðað við að bæta innheimtu sekta. Á síðustu fimm árum boðaði Fangelsismálastofnun 134 einstaklinga í afplánun vegna ógreiddra dómsekta fyrir skattalagabrot. Sektir þessara aðila námu á bilinu 8–120 milljónum króna, samtals um 4 milljörðum króna. Áætlað er að einungis um 5% af þessari fjárhæð verði innheimt en að flestir einstaklinganna muni gera sekt sína upp með samfélagsþjónustu.
Leiðir til úrbóta
Í skýrslunni lýsir Ríkisendurskoðun áhyggjum af því hve illa gengur að innheimta dómsektir. Að mati stofnunarinnar þarf að bæta aðgengi innheimtuaðila að fjárhagsupplýsingum sektarþola, lögfesta heimild til að draga sektarfjárhæð frá launum og rýmka heimildir til að greiða sektir með afborgunum þannig að samningar geti tekið til lengri tíma en eins árs. Samkvæmt núgildandi lögum er greiðslufrestur dómsekta almennt ekki lengri en eitt ár. Þá beri að takmarka heimildir til að fullnusta vararefsingu fésekta með samfélagsþjónustu enda megi færa rök fyrir því það fyrirkomulag eigi þátt í því hve lítill hluti dómsekta skili sér í ríkissjóð. Þá dragi það úr þeim varnaðaráhrifum sem háum sektum eða fangelsisdómum sé ætlað að hafa. Loks er hvatt til þess að upplýsingakerfi allra aðila réttarvörslukerfisins verði tengd saman til að komið verði í veg fyrir margskráningu upplýsinga, öryggi gagna tryggt og auðveldara verði að rekja feril mála.