Ljúka þarf endurskoðun laga um Þjóðskrá Íslands

Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðuneyti til að ljúka endurskoðun laga sem varða starfsemi Þjóðskrár Íslands. Eins er ráðuneytið hvatt til að taka fjármögnun stofnunarinnar til skoðunar.

Árið 2013 birti Ríkisendurskoðun úttekt á Þjóðskrá Íslands og beindi þar fjórum ábendingum til innanríkisráðuneytis og þremur til Þjóðskrár Íslands. Ráðuneytið var hvatt til að ljúka endurskoðun laga um stofnunina, taka fjármögnun hennar til skoðunar, efla fag- og fjárhagslegt eftirlit með henni og huga að endurnýjun upplýsingakerfa hennar og umsóknar- og framleiðslukerfa. Þá var Þjóðskrá Íslands hvött til að auka aðgæslu í rekstri, auka áherslu í mannauðsmálum og taka upp verkbókhald í starfsemi sinni.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu ítrekar Ríkisendurskoðun tvær ábendinga sinna til innanríkisráðuneytis. Bent er á að hraða þurfi vinnu við endurskoðun laga um Þjóðskrá Íslands. Núgildandi lög taka ekki mið af samfélags- og tæknibreytingum undanfarandi áratuga auk þess sem starfssvið stjórnar stofnunarinnar nær ekki til þjóðskrárhluta hennar. Eins telur Ríkisendurskoðun þörf á að endurskoða fjármögnun Þjóðskrár Íslands sem starfar að hluta til samkvæmt gjaldskrá og að hluta til með framlögum úr ríkissjóði. Þótt tekist hafi að reka stofnunina innan fjárheimilda á undanförnum árum þarf hún enn að reiða sig á viðbótarframlag úr ríkissjóði, m.a. vegna kaupa og framleiðsu á vegabréfum, en tekjur af sölu þeirra renna óskiptar í ríkissjóð. Ríkisendurskoðun telur að Þjóðskrá Íslands hafi brugðist með fullnægjandi hætti við þeim þremur ábendingum sem beint var til hennar.