Ljúka þarf endurskoðun reiknilíkans framhaldsskóla

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki þrjár ábendingar sem beint var til mennta- og menningarmálaráðuneytis árið 2014 vegna rekstrarstöðu og reiknilíkans framhaldsskóla.

Stofnunin mun þó fylgjast með þróun mála og taka málið upp að nýju verði þess þörf. Ráðuneytið er hvatt til að ljúka vinnu við endurskoðun reiknilíkansins, nýta það til að jafna stöðu framhaldsskóla og tryggja þeim fjármögnun samkvæmt raunhæfum áætlunum og raunverulegum launakostnaði.

Í lok árs 2016 var heildarrekstrarstaða framhaldsskólanna jákvæð auk þess sem gert er ráð fyrir 650 m.kr. árlegri hækkun á framlagi til framhaldsskóla í fjármálaáætlun 2017-21. Til samanburðar hafði samanlögð rekstrarafkoma framhaldsskóla verið neikvæð um 109 m.kr árið  2013 vegna samdráttar í fjárveitingum og var mennta- og menningarmálaráðuneyti hvatt til að bregðast við þeim vanda. Þess ber reyndar að geta að blikur gætu verið á lofti fyrir fjárhag framhaldsskólanna, þar sem áætlað er, samkvæmt ósamþykktri fjármálaáætlun 2018-22, að lækka framlög um 630 m.kr. vegna styttingar námstíma. Þá voru 11 af 27 framhaldsskólum reknir með halla í lok árs 2016 en einn skóli hafði áberandi jákvæða rekstrarafkomu og stóð nánast einn undir samanlagðri jákvæðri rekstrarafkomu framhaldsskóla. Mikið ójafnræði er því milli einstakra skóla og er ráðuneytið hvatt til að bæta úr því.

Ráðuneytið stefnir að því að taka upp nýtt reiknilíkan við fjárlagavinnu fyrir árið 2018 og á samsetning líkansins að leiða til réttlátrar skiptingar fjármagns milli framhaldsskóla. Þá hefur launastika líkansins verið hækkuð um 55,5% frá 2014-16, en nær samt ekki meðalárslaunum kennara, eins og kveðið er á um í reglugerð nr. 335/1999 um reiknilíkan. Ríkisendurskoðun bendir á að stærstan hluta rekstrarhalla framhaldsskóla megi rekja til vanáætlaðs launakostnaðar.