Lyfjakostnaður. Notkun, verð og framboð lyfja á Íslandi

By 2.04.2004 2004 No Comments

Árið 2003 nam lyfjakostnaður hér á landi um 14 milljörðum kr. með virðisaukaskatti. Ef hver Íslendingur hefði greitt jafnmikið fyrir lyf og Danir og Norðmenn gerðu að meðaltali þetta ár hefði þessi kostnaður orðið 4,4 milljörðum kr. lægri.
Á undanförnum árum hefur lyfjaneysla Íslendinga aukist mikið. Hlutfallslega hefur lyfjakostnaður þó aukist enn meir. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar ¿Lyfjakostnaður. Notkun, verð og framboð lyfja á Íslandi¿ er m.a. greint frá kostnaði Íslendinga vegna lyfjakaupa árið 2003 og hann borinn saman við kostnað þeirra þjóða sem lyfjaverð hér á landi er einkum miðað við, þ.e. Dana og Norðmanna. Leitast er við að skýra þann mikla mun sem fram kemur og settar fram ábendingar um það hvernig draga megi úr kostnaði vegna lyfjakaupa og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun.

Lyfjaverð hér á landi tekur að stærstum hluta mið af lyfjaverði í Danmörku og Noregi. Samanburður Ríkisendurskoðunar við þessi lönd vegna ársins 2003 leiðir í ljós að þá greiddu Íslendingar að meðaltali 46% meira fyrir lyf en þessar þjóðir þrátt fyrir heldur minni lyfjanotkun, samanborið við 37% mun árið 2002. Ef lyfjakostnaður hvers Íslendings árið 2003 hefði verið sambærilegur við meðalkostnað Dana og Norðmanna þetta ár hefði lyfjakostnaður landsmanna minnkað um 4,4 milljarða kr. eða 3,5 milljarð kr. sé virðisaukaskatti sleppt.

Ríkisendurskoðun bendir á að þessi munur skýrist fyrst og fremst af tveimur álíka veigamiklum þáttum. Annars vegar noti Íslendingar verulega minna af ódýrum samheitalyfjum en Danir og Norðmenn sem á allra síðustu árum hafa aukið mjög sölu slíkra lyfja. Hins vegar sé kostnaður við að dreifa lyfjum og selja meiri hér á landi en í hinum löndunum, m.a. vegna smæðar markaðarins, lítillar veltu margra lyfja, kostnaðar við að merkja lyf á íslensku og þess að apótek eru hlutfallslega fleiri hér en þar.

Í skýrslu sinni setur Ríkisendurskoðun fram margvíslegar ábendingar um það hvernig stjórnvöld, lyfjafyrirtæki og læknar geti dregið úr lyfjakostnaði hér á landi. Þar er brýnast að tryggja að framboð og verð ódýrra samheitalyfja sé sambærilegt við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Til þess að stuðla að lægra lyfjaverði mætti m.a. grípa til eftirfarandi ráðstafana: Breyta greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þannig að hún miðist almennt við lægsta lyfjaverð í samanburðarlöndunum að teknu tilliti til eðlilegrar álagningar. Hvetja sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir til að notast við lyfjalista, þar sem reynt er að tryggja hagstæðustu lyfjanotkun, og fylgjast betur með því að læknar ávísi jafnan á ódýrasta sambærilega lyfið þegar það á við. Þá þyrfti að endurskoða heimilaða álagningu bæði í heild- og smásölu þannig að hún hvetji til sölu á ódýrum lyfjum. Einnig þyrftu stjórnvöld í samstarfi við lyfjafyrirtækin að kanna hvernig hagræða megi og draga úr kostnaði við dreifingu og sölu lyfja. Að lokum bendir Ríkisendurskoðun á nauðsyn þess að endurmetið sé hlutverk þeirra opinberu aðila sem stjórna og hafa eftirlit með lyfjamálum með það fyrir augum að færa verkefni á færri hendur.