Margar sjálfseignarstofnanir hafa ekki skilað ársreikningi fyrir 2009

280 af samtals 688 sjálfseignarstofnunum sem skila áttu ársreikningi til Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2009 höfðu ekki gert það í lok síðasta árs.Samkvæmt lögum nr. 19/1988 skulu sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá skila ársreikningum sínum til Ríkisendurskoðunar. Hér er um að ræða sjálfseignarstofnanir sem ekki stunda atvinnurekstur, einkum ýmsa styrktar- og minningarsjóði og góðgerðarstofnanir. Berist ársreikningur ekki til Ríkisendurskoðunar eða ef í ljós koma annmarkar á honum getur stofnunin vísað málinu til sýslumanns sem eftir atvikum getur falið lögreglu að rannsaka fjárreiður viðkomandi aðila.
Ríkisendurskoðun heldur skrá yfir tekjur og gjöld sjálfseignarstofnana, eignir þeirra og skuldir. Af þeim 688 stofnunum sem áttu að skila ársreikningi fyrir árið 2009 höfðu 408 skilað í lok ársins 2010 en 280 ekki.