Marka þarf stefnu um málefni einstaklinga með skerta starfsgetu

Einstaklingsmiðuð starfsendurhæfing getur skilað þeim einstaklingum sem í hlut eiga, ríkissjóði og lífeyrissjóðum umtalsverðum fjárhagslegum ávinningi. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að auka stuðning við þá sem þurfa á slíkri endurhæfingu að halda. Þá þurfi stjórnvöld að marka heildstæða stefnu um málefni einstaklinga með skerta starfsgetu og efla samstarf sitt við aðila vinnumarkaðarins á þessu sviði.Tæplega 15.200 einstaklingar fengu greiddan örorkulífeyri árið 2011. Samkvæmt lögum um almannatryggingar má setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en örorkumat fer fram. Meðan á slíkri endurhæfingu stendur er heimilt að greiða honum tímabundinn endurhæfingarlífeyri. Um 1.100 fengu greiddan slíkan lífeyri árið 2011 og námu greiðslur vegna hans rúmlega 2,3 milljörðum króna. Samkvæmt lögum greiða atvinnurekendur, lífeyrissjóðir og ríkissjóður í sameiningu og að jöfnu kostnað af atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Hún felst í ráðgjöf og úrræði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa til að auka starfsgetu þeirra og stuðla markvisst að endurkomu þeirra til vinnu.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að rannsóknir sýni að einstaklingsmiðuð starfsendurhæfing skili sér undantekningarlítið í aukinni færni og betri líkamlegri og andlegri líðan þeirra sem þiggja hana. Einnig geti árangursrík starfsendurhæfing haft umtalsverðan fjárhagslegan ávinning í för með sér, jafnt fyrir einstaklingana, ríkissjóð og lífeyrissjóði. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að auka stuðning við þá sem hafa þurft starfsendurhæfingu. Þá þarf að efla samvinnu stjórnvalda og atvinnurekenda með það að markmiði að auðvelda færniskertum einstaklingum endurkomu á vinnumarkað. Í því sambandi telur Ríkisendurskoðun eðlilegt að líta til fyrirkomulags í öðrum löndum, t.d. Danmörku og Hollandi.

Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið þurfi að marka heildstæða stefnu um málefni einstaklinga með skerta starfsgetu, einnig þeirra sem lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu ná ekki til. Ekki sé þó nóg að tryggja einstaklingum rétt til slíkrar endurhæfingar. Einnig þurfi að gera þeim kleift, með viðeigandi aðstoð, að snúa aftur út á vinnumarkað þótt starfsgeta þeirra sé skert. Í þessu sambandi þurfi stjórnvöld að stuðla að aukinni ábyrgð vinnuveitenda. Þá telur Ríkisendurskoðun að við endurskoðun laga um almannatryggingar beri að taka til nákvæmrar skoðunar möguleika á því að taka upp heildrænt starfsgetumat en við slíkt mat er færni einstaklinga metin út frá líkamlegum, andlegum og félagslegum forsendum.

Árið 2008 stóðu stjórnvöld ásamt hagsmunaaðilum á vinnumarkaði að stofnun sérstaks sjóðs sem metur ástand fólks og þörf þess fyrir starfsendurhæfingu, VIRK ‒ Starfsendurhæfingarsjóðs. Fyrirhugað er að sjóðurinn annist í framtíðinni kaup á atvinnutengdri starfsendurhæfingarþjónustu fyrir hönd velferðarráðuneytisins og fjármagni hana. Ríkisendurskoðun bendir á að ganga þurfi frá samningi milli ráðuneytisins og sjóðsins um þetta. Þá þurfi ráðuneytið að setja skýrar reglur um eftirlit með framkvæmdinni.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að skýra betur hvað felst í 2. gr. laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu ef hún á að koma að fullu gagni. Þar er kveðið á um nána samvinnu starfsendurhæfingarsjóða og stofnana ríkis og sveitarfélaga við að ná markmiðum laganna. Nauðsynlegt er að skilgreina í hvaða formi þessi samvinna skuli vera eða hver eigi að hafa forgöngu um hana.

Allir eiga rétt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða að uppfylltum tilteknum skilyrðum sjóðanna. Öryrkjabandalag Íslands hefur þó bent á að hluti skilyrðanna gæti takmarkað verulega aðgengi þess hóps sem þarf einna mest á þjónustu að halda en skortir styrk og þor til að undirgangast þær skuldbindingar. Ekki hafa að öllu leyti verið fundin viðunandi endurhæfingarúrræði fyrir þennan hóp innan velferðarkerfisins. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf réttur þessa fólks að vera vel skilgreindur og lögfestur.