Markvisst verði unnið að lagafrumvarpi um Umhverfisstofnun

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur að endurskoðun laga um Umhverfisstofnun. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að stuðla að því að hægt verði að leggja fram lagafrumvarp næsta haust.Árið 2006 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem fjallað var um sameiningu nokkurra stofnana á sviði umhverfismála í Umhverfisstofnun árið 2003. Ein meginniðurstaða úttektarinnar var sú að markmið sameiningarinnar hefðu ekki náðst, m.a. vegna þess að ekki var kveðið á um hlutverk og verkefni Umhverfisstofnunar í heildstæðri löggjöf heldur á víð og dreif í lögum og reglugerðum. Í skýrslunni var lagt til að löggjöf um verkefni stofnunarinnar yrði endurskoðuð og eftir atvikum sett í ein lög. Árið 2010 kannaði Ríkisendurskoðun hvort þessari ábendingu hefði verið framfylgt og kom í ljós að svo var ekki. Ári síðar kannaði Ríkisendurskoðun stöðuna aftur og hvatti þá umhverfisráðuneytið (nú umhverfis- og auðlindaráðuneyti) til að beita sér fyrir endurskoðun laga um Umhverfisstofnun.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur nú að endurskoðun laga sem varða starfsemi Umhverfisstofnunar. Meðal annars hefur verið skipaður starfshópur til að vinna frumvarp til nýrra laga um Umhverfisstofnun sem stjórnsýslustofnun umhverfismála. Að svo stöddu telur Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að ítreka ábendingu sína en hvetur ráðuneytið til að tryggja að umræddur starfshópur vinni markvisst svo að unnt verði að leggja fram frumvarp á Alþingi næsta haust.