Mennta- og menningarmálaráðuneytið bregðist við ábendingum um framhaldsfræðslu

Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að bregðast við ábendingum Capacent um úrbætur í fræðslumálum fólks sem hefur stutta formlega skólagöngu að baki.
Lög um framhaldsfræðslu miða að því að veita fullorðnum einstaklingum með stutta formlega skólagöngu að baki tækifæri til að stunda nám. Á grundvelli laganna hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið samið við símenntunarmiðstöðvar, sem starfa vítt og breitt um landið, um framlög úr ríkissjóði. Ráðuneytið hefur einnig samið við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem er í eigu hagsmunasamtaka á vinnumarkaði, um að annast tiltekin verkefni á þessu sviði. Hún annast m.a. umsýslu Fræðslusjóðs sem veitir framlög til kennslu- og námskeiðahalds og tengdra verkefna. Einstaklingar sem ljúka námi á vegum símenntunarmiðstöðva eða annarra viðurkenndra fræðsluaðila geta sótt um að fá þau metin til eininga í framhaldsskólum. Framlög úr ríkissjóði vegna þessa kerfis námu í heild um 7,5 milljörðum króna á árunum 2009–2014.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ráðuneytið hafi árið 2013 falið fyrirtækinu Capacent að gera heildstæða úttekt á framhaldsfræðslukerfinu. Tilgangurinn var að kanna hvort markmið þess hefðu náðst og hvort þau væru faglega og fjárhagslega raunhæf. Capacent taldi að almennt hefðu markmiðin náðst, misvel þó, og að þeir fjármunir sem ríkið hefði varið til þessa hefðu almennt verið nýttir á skilvirkan hátt og runnið til þeirra verkefna sem að var stefnt. Hins vegar mætti bæta árangurinn með því m.a. að efla gæðastarf og ráðgjöf við þiggjendur þjónustunnar og með bættri kynningu á henni. Þá mætti gera kerfið skilvirkara með því að tryggja að framhaldsskólar meti með samræmdum hætti það nám sem stundað er innan framhaldsfræðslukerfisins. Í skýrslu Capacent er jafnframt bent á ýmsar aðrar leiðir til úrbóta á kerfinu.

Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að leggja faglegt mat á ábendingar Capacent og bregðast við þeim.