Mikilvægt að ganga frá samningsmálum Heimilislæknastöðvarinnar ehf.

Ríkisendurskoðun hvetur heilbrigðisyfirvöld og Heimilislæknastöðina ehf. til að ljúka uppgjöri á fjárskuldbindingum félagsins vegna þjónustusamnings þess við ríkið. Jafnframt þurfa yfirvöld að hraða gerð nýs samnings en eldri samningur rann út í árslok 2000.Árið 2011 beindi Ríkisendurskoðun tveimur ábendingum til heilbrigðisyfirvalda vegna viðskipta þeirra við Heimilislæknastöðina ehf. sem rekur Heilsugæsluna Lágmúla. Annars vegar benti Ríkisendurskoðun á að ef yfirvöld hygðust áfram kaupa þjónustu af félaginu bæri Sjúkratryggingum Íslands að hraða gerð nýs þjónustusamnings þar um og tryggja að honum yrði fylgt. Eldri samningur gilti til ársloka 2000 en var ekki endurnýjaður. Hins vegar benti Ríkisendurskoðun á að áður en hægt væri að gera nýjan samning þyrfti að gera upp fjárskuldbindingar félagsins vegna eldri samningsins. Þar er um að ræða óuppgerðar lífeyrisskuldbindingar og kostnað vegna endurnýjunar á búnaði Heilsugæslunnar Lágmúla.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur nýr þjónustusamningur ekki verið gerður né heldur hefur farið fram uppgjör á fjárskuldbindingum Heimilislæknastöðvarinnar ehf. vegna eldri samnings. Fram kemur að ástæðan sé ólík túlkun aðila á fjárskuldbindingum læknastöðvarinnar. Síðustu vikur hafi farið fram viðræður milli þeirra sem gefi góðar vonir um að lausn sé í sjónmáli. Ríkisendurskoðun fagnar því og telur að svo stöddu ekki rétt að ítreka ábendingar sínar frá 2011. Stofnunin hvetur þó aðila til að ljúka málinu sem allra fyrst svo að nýr samningur geti tekið gildi í ársbyrjun 2015.