Mikilvægt að hraða samningum við öldrunarheimili

Einungis hafa verið gerðir þjónustusamningar við 7 af 74 öldrunarheimilum í landinu. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að hraða samningum við heimilin.

Árið 2013 benti Ríkisendurskoðun á að velferðarráðuneytið hefði einungis gert þjónustusamninga við 8 af 73 öldrunarheimilum í landinu. Stofnunin hvatti ráðuneytið til að bæta úr þessu og efla eftirlit sitt með þjónustu og rekstri heimilanna.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að samningagerð við öldrunarheimili og eftirlit með þjónustu þeirra og rekstri eru nú lögbundin verkefni Sjúkratrygginga Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá þeirri stofnun liggja fyrir drög að rammasamningi við hjúkrunarheimili sem sinna öldrunarþjónustu. Áætlað er að búið verði að semja við heimilin á þeim grundvelli á þessu ári. Af þessum sökum telur Ríkisendurskoðun ekki rétt að ítreka ábendingar sínar frá árinu 2013. Stofnunin bendir þó á að samningagerðin hefur gengið hægt og að nú eru einungis í gildi þjónustusamningar við 7 af 74 öldrunarheimilum í landinu. Stofnunin telur mikilvægt að hraða þessari vinnu.