Misbrestur á að sjálfseignarstofnanir skili reikningum

Tæplega þriðjungur sjálfseignarstofnana sem lögum samkvæmt áttu að skila reikningum sínum fyrir árið 2008 til Ríkisendurskoðunar hefur ekki gert það.Samkvæmt lögum nr. 19/1988 ber sjóðum og stofnunum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá að senda ársreikninga sína til Ríkisendurskoðunar. Hér er um að ræða sjálfseignarstofnanir sem ekki stunda atvinnurekstur, einkum ýmsa styrktar- og minningarsjóði og góðgerðarstofnanir. Ríkisendurskoðun heldur skrá yfir þessa aðila og hefur eftirlit með því að ársreikningar þeirra skili sér. Hafi reikningur ekki borist í eitt ár eða hann reynst ófullkominn að einhverju leyti getur Ríkisendurskoðun vísað málinu til sýslumanns sem eftir atvikum getur falið lögreglu að rannsaka fjárreiður viðkomandi aðila.
Í nýbirtu yfirliti Ríkisendurskoðunar kemur fram að í lok apríl sl. höfðu 486 aðilar af samtals 705 sem féllu undir fyrrnefnd lög árið 2008 skilað ársreikningum fyrir það ár. Tæplega þriðjungur eða 219 höfðu ekki skilað.
Um miðjan mars sl. sendi Ríkisendurskoðun áskorun til vörslumanna 220 sjálfseignarstofnana sem ekki höfðu skilað reikningum sínum fyrir fleiri en eitt ár. Í lok apríl sl. hafði 121 af þeim skilað gögnum til stofnunarinnar en 99 ekki og hefur sýslumaðurinn á Sauðárkróki, sem annast framkvæmd laganna, mál a.m.k. einnar þeirra til skoðunar. Í samræmi við heimildir í lögum hyggst Ríkisendurskoðun, í samráði við sýslumann, beita sér fyrir því að sjálfseignarstofnanir sem ekki hafa neina starfsemi verði sameinaðar öðrum með skyld markmið eða lagðar niður.
Heildareignir sjálfseignarstofnana sem skiluðu reikningum fyrir árið 2008 námu samtals 41,0 ma.kr. í árslok. Skuldir þeirra námu samtals 15,1 ma.kr. og var eigið fé því samtals 25,9 ma.kr. Heildartekjur námu samtals 10,7 ma.kr. en gjöld 11,7 ma.kr. Af þessum stofnunum höfðu 104 yfir 5,0 m.kr. í tekjur á árinu og 100 áttu meira en 30,0 m.kr. í eigin fé.
Með yfirlitinu fylgja upplýsingar um helstu stærðir í ársreikningum sjálfseignarstofnana 2008, skrá yfir alla slíka aðila sem Ríkisendurskoðun annast eftirlit með og listi yfir þá sem ekki hafa skilað reikningum sínum um lengri eða skemmri tíma.