Morgunverðarfundur um innkaupamál ríkisins

Á morgunverðarfundi um innkaupamál ríkisins, sem haldinn var á Grand Hóteli í dag, kynnti Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun, niðurstöður nýlegra skýrslna stofnunarinnar á þessu sviði.Fundurinn bar yfirskriftina „Hvernig geta stjórnendur náð betri árangri í innkaupum? Tækifæri til frekari hagræðingar í rekstri stofnana“ og var haldinn á vegum Ríkisendurskoðunar, fjármálaráðuneytisins, Ríkiskaupa, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Í upphafi fundarins flutti fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, ávarp en auk Kristínar fluttu erindi þau Jóhanna Erný Hilmarsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunarsviðs Ríkiskaupa, Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, Elva Rakel Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og Haraldur Bjarnason, sérfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu. Fundarstjóri var Magnús Pétursson ríkissáttasemjari.
Í erindi sínu ræddi Kristín Kalmansdóttir einkum niðurstöður tveggja skýrslna stofnunarinnar sem komu út á síðasta ári. Í þeirri fyrri, Opinber innkaup. Áfangaskýrsla 1. Innkaupastefna ráðuneytanna, benti Ríkisendurskoðun m.a. á að auka þyrfti vægi innkaupamála í starfsemi ráðuneyta og stofnana. Fram kom að árið 2007 hefði þáverandi ríkisstjórn samþykkt nýja innkaupastefnu. Hún hefði hins vegar verið dregin til baka skömmu síðar þar sem hún þótti ekki fyllilega samrýmast öðrum stjórnsýslufyrirmælum. Ríkisendurskoðun taldi að fjármálaráðuneytið þyrfti að efla kynningu um og eftirlit með innkaupamálum ríkisins, marka þyrfti skýra framkvæmdaáætlun um opinber innkaup og meta árangurinn reglulega, svo dæmi séu nefnd um ábendingar skýrslunnar.
Síðari skýrslan sem Kristín ræddi sérstaklega í erindi sínu nefnist Opinber innkaup. Áfangaskýrsla 3. Viðskipti ríkisstofnana við 800 birgja. Ríkisendurskoðun tók úrtak 800 birgja og kannaði viðskipti ríkisstofnana við þá. Í ljós kom að nokkur dæmi voru um að stofnanir hefðu samið við birgja í úrtakinu án útboðs þótt fjárhæðir hefðu verið yfir lögbundnum viðmiðunarmörkum útboðsskyldu. Þá voru allmörg dæmi um að stofnanir hefðu ekki virt á fullnægjandi hátt lögbundna skyldu til að bera saman verð og þjónustu sem flestra fyrirtækja þegar fjárhæðir viðskipta eru undir viðmiðunarmörkunum. Ríkisendurskoðun benti m.a. á að koma þyrfti á fót miðlægum auglýsingavef innkaupa og fjölga tegundum sk. rammasamninga en það eru samningar sem Ríkiskaup hafa gert við fjölmörg fyrirtæki og fela í sér sérstök afsláttarkjör til ríkisstofnana. Þá var bent á að móta þyrfti staðlaðan gátlista fyrir verðkannanir. Í kjölfar útkomu skýrslunnar efndu Ríkisendurskoðun og Ríkiskaup til samstarfs um gerð slíks lista og er hann nú aðgengilegur á heimasíðum stofnananna.
Haustið 2009 hóf Ríkisendurskoðun úttekt á innkaupamálum ríkisins og hafa þegar komið út fjórar áfangaskýrslur um niðurstöður hennar og þrjár sjálfstæðar ábendingar. Árið 2013 mun stofnunin fylgja þessum skýrslum eftir með því að kanna að hvaða marki ábendingar þeirra hafi verið framkvæmdar.