Móta þarf skýra stefnu um framtíð dvalarheimila fyrir aldraða

Rýmum á dvalarheimilum fyrir aldraða hefur fækkað um helming á síðustu sex árum. Þetta er í samræmi við markmið stjórnvalda um að aldraðir eigi að geta búið heima sem lengst með viðeigandi stuðningi. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld þurfi að móta skýra stefnu um framtíð dvalarheimila. Þá telur stofnunin að fjárframlög ríkisins til heimilanna eigi að einhverju leyti að ráðast af þjónustuþörf íbúanna til að tryggja að fé renni þangað sem þörfin er mest.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um rekstur og starfsemi dvalarheimila fyrir aldraða. Fram kemur að á síðustu sex árum hafi rýmum á dvalarheimilum (dvalarrýmum) fækkað um nálega helming. Á sama tíma hafi öldruðum hér á landi (67 ára og eldri) fjölgað um 10%. Markmið stjórnvalda er að þessi hópur geti með viðeigandi stuðningi búið við eðlilegt heimilislíf sem lengst. Gamalt fólk eigi ekki að dvelja á stofnun nema það sé ófært um að búa heima þrátt fyrir stuðning. Lögð hefur verið áhersla á uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir þá sem ekki geta búið heima. Um leið hefur markmiðið verið að fækka rýmum á dvalarheimilum fyrir aldraða.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir dvalarrýmum almennt dregist saman sem kann að benda bendir til þess að stefna stjórnvalda hafi að einhverju leyti gengið fram. Breyttar reglur um færni- og heilsumat hafa þó líka haft nokkur áhrif. Á sama tíma býðst öldruðum sem búa heima nú meiri þjónusta en áður, t.d. hefur svokölluðum dagdvalarrýmum fjölgað töluvert og aukin áhersla hefur verið lögð á heimahjúkrun. Um slíka þjónustu vantar þó fullnægjandi upplýsingar. Hins vegar hefur hjúkrunarrýmum fækkað um 3% síðustu sex ár, þvert á stefnu stjórnvalda.

Þótt biðlistar eftir dvalarrýmum hafi styst á síðustu árum eru þeir enn fyrir hendi. Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa stjórnvöld því að móta skýra stefnu um framtíð dvalarheimila. Meðal annars þarf að ákveða hvort fækka eigi dvalarrýmum frekar en orðið er og þá með hvaða hætti. Í því sambandi ber að hafa í huga að þörf fyrir slík heimili er mismikil eftir landshlutum.

Tekjur dvalarheimila eru að stærstum hluta svokölluð daggjöld úr ríkissjóði. Um er að ræða fasta fjárhæð á hvert dvalarrými sem tekur hvorki mið af heilsu íbúa og þjónustuþörf né stærð heimila og staðsetningu. Taxti daggjaldsins hefur hækkað umfram verðlag undanfarin ár en engu að síður eiga mörg dvalarheimili erfitt með að ná endum saman. Að mati Ríkisendurskoðunar ættu daggjöld, a.m.k. að hluta, að miðast við mat á þjónustuþörf til að tryggja að fjármunir renni þangað sem þörfin er mest.

Ekki liggja fyrir nákvæmar reglur um umfang og gæði þjónustu á dvalarheimilum fyrir aldraða. Samkvæmt könnun Ríkisendurskoðunar hefur hjúkrunarþjónusta almennt aukist undanfarin ár enda eru íbúar nú að jafnaði eldri og veikari en áður.

Loks má geta þess að úttekt Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að körlum gengur almennt betur að fá úthlutað dvalarrými en konum. Margt bendir til þess að þar hafi félagslegar aðstæður einhver áhrif. Konur eru þó í meirihluta íbúa heimilanna enda eru þær í miklum meirihluta þeirra sem bíða eftir rýmum. Þá dveljast þær almennt lengur á heimilunum en karlar vegna þess að þær ná hærri aldri.