Mótuð verði stefna um málefni fólks með skerta starfsgetu

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að móta heildstæða stefnu vegna einstaklinga með skerta starfsgetu. Þar komi m.a. fram skýr markmið, aðgerðaáætlun og mælikvarðar á árangur. Jafnframt hvetur stofnunin ráðuneytið til að setja reglur um eftirlit sitt með kaupum VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs á þjónustu fyrir þennan hóp.Fólk sem býr við skerta starfs­­getu, t.d. vegna veikinda eða slysa, á kost á endurhæfingu til að eiga auðveldara með að fóta sig á vinnumarkaði. Slík endurhæfing getur t.d. falið í sér sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun eða viðtalsmeðferð. Almennt er talið að slíkar aðgerðir hafi mikinn fjárhagslegan ávinning í för með sér. Starfræktur er sérstakur sjóður, VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður, sem fjármagnar kaup á endurhæfingarþjónustu fyrir þennan hóp. Ríkissjóður ásamt atvinnurekendum og lífeyrissjóðum greiða kostnað vegna hennar. Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem settar voru fram samtals fjórar ábendingar til velferðarráðuneytis um úrbætur á þessu sviði.
Ráðuneytið var hvatt til að:

  • Móta heildstæða stefnu um málefni fólks með skerta starfsgetu, einnig þess sem lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu taka ekki til. Setja fram skýr markmið, aðgerðaáætlun og mælikvarða á árangur.
  • Stuðla að aukinni ábyrgð vinnuveitenda á að koma til móts við þarfir þessa hóps.
  • Auka samfellu í endurhæfingarferlinu. Mikilvægt væri að starfsendurhæfing hæfist fyrr en verið hefði og að henni væri fylgt betur eftir.
  • Semja við VIRK – Starfsendurhæfingarsjóð um kaup á endurhæfingarþjónustu fyrir fólk sem stæði utan vinnumarkaðar og ætti þar með ekki lögbundinn rétt á þjónustunni. Jafnframt þyrfti að setja skýrar reglur eftirlit ráðuneytisins með þjónustukaupum sjóðsins.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur ráðuneytið brugðist þannig við tveimur af þessum ábendingum að ekki þykir ástæða til að ítreka þær. Ráðstafanir hafi verið gerðar til að stuðla að því að vinnuveitendur komi til móts við fólk með skerta starfsgetu og til að auka samfellu í endurhæfingarferlinu. Aftur á móti hafi ráðuneytið ekki mótað heildstæða stefnu um málefni þessa hóps né sett reglur um eftirlit með kaupum VIRK – Starfsendurhæfingarjóðs á þjónustu. Ábendingar um þessi atriði eru því ítrekaðar.