Mun fylgjast grannt með sameiningu ríkisstofnana

Ríkisendurskoðun ætlar að hafa eftirlit með því hvernig áform stjórnvalda um sameiningu stofnana munu ganga fram.Ríkisstjórnin hefur kynnt áform um að endurskipuleggja opinbera þjónustu og sameina stofnanir á næstu árum, sbr. fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins frá 28. september sl. Í samræmi við lögbundið eftirlitshlutverk sitt mun Ríkisendurskoðun fylgjast með því hvernig þessi áform ganga fram og meta hvernig til tekst. Í þessu skyni hefur stofnunin útbúið lista með spurningum sem beint verður til ráðuneyta og stýrihópa. Þær lúta í senn að undirbúningi og framkvæmd fyrirhugaðra breytinga og fela í sér þau árangursviðmið sem stofnunin mun horfa til við matið.
Spurningalistinn verður sendur fyrrnefndum aðilum þegar formleg ákvörðun um sameiningu liggur fyrir eða þegar lög þar um hafa verið samþykkt á Alþingi. Ríkisendurskoðun mun vinna úr svörunum og öðrum upplýsingum og birta þau og niðurstöður sínar jafnóðum í opinberum skýrslum.
Á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun unnið nokkrar úttektir á sameiningu ríkisstofnana. Í flestum þeirra var niðurstaðan sú að skipulagningu og undirbúningi sameiningar hafi verið ábótavant.
Þess má geta að umrætt eftirlitsverkefni er í samræmi við starfsáætlun Ríkisendurskoðunar fyrir stjórnsýsluendurskoðun á tímabilinu 2009–11 en þar kemur fram að stofnunin muni á tímabilinu leggja áherslu á svokallað samtímaeftirlit. Í því felst að fylgjast með stjórnun og rekstri ríkisins í samtíma í stað þess að gera úttekt eftir á, jafnvel að nokkrum árum liðnum, eins og hingað til hefur verið venjan í starfsemi stofnunarinnar.