Nauðsynlegt að bæta úr húsnæðisvanda fangelsa

Skortur er á rými fyrir fanga í fangelsum landsins. Ríkisendurskoðun telur brýnt að úr þessu verði bætt og að stjórnvöld móti heildarstefnu um fullnustu refsinga. Þá þurfi að breyta skipulagi fangelsismála.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að einstaklingar sem biðu eftir því að hefja afplánun refsidóma voru þrefalt fleiri á síðasta ári en árið 2005. Einnig að meðalbiðtími frá því að einstaklingur var boðaður í afplánun og þar til hún hófst hafi meira en tvöfaldast tímabilinu. Þá séu dæmi um að skortur á rými í fangelsum landsins hafi valdið því að óskilorðsbundnir dómar hafi fyrnst áður en afplánun gat hafist. Að mati stofnunarinnar geti þetta dregið úr varnaðaráhrifum refsinga og grafið undan trausti almennings á réttarvörslukerfinu.
Ríkisendurskoðun telur brýnt að mótuð verði skýr heildarstefna um fullnustu refsinga, þ.e. þann hluta réttarvörslukerfisins sem sér um framkvæmd refsinga. Þar komi m.a. fram lykiláherslur stjórnvalda um fjölgun fangarýma. Í þessu sambandi leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að stjórnvöld taki afstöðu til tillögu sem fyrir liggur um nýtt gæsluvarðhalds- og skammtímavistunarfangelsi á höfuðborgarsvæðinu.
Þá telur Ríkisendurskoðun að forstjóri Fangelsismálastofnunar eigi að fá vald til að skipa forstöðumenn fangelsa, en þeir eru nú skipaðir af ráðherra, og að stofnuninni verði tryggt fjármagn til að sinna lögbundnum verkefnum sínum með viðunandi hætti. Unnið verði að því að draga úr endurkomum í fangelsi, m.a. með því að auka möguleika fanga á því stunda atvinnu eða nám. Í skýrslunni er enn fremur lagt til að Landlæknisembættinu verði falið að meta þjónustu við fanga með geðræn vandamál og að mótuð verði heildarstefna í málefnum geðsjúkra, fatlaðra og aldraðra fanga.
Fram kemur að á tímabilinu 2005–2009 lauk um helmingur allra fanga afplánun sinni á áfangaheimilinu Vernd sem rekið er af frjálsum félagasamtökum. Að mati Ríkisendurskoðunar ber að leita leiða til að fjölga möguleikum fanga á að afplána dóma utan fangelsa.
Hugmyndir hafa verið uppi um að rýmka heimildir Fangelsismálastofnunar til að leyfa föngum að afplána dóma með svokallaðri samfélagsþjónustu eða veita þeim reynslulausn. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að metið verði hvort þetta myndi samrýmast reglunni um þrískiptingu ríkisvaldsins en samkvæmt henni er það dómstóla að ákveða refsingar.
Loks er í skýrslunni lagt til að Fangelsismálastofnun móti heildstætt skipurit fyrir stofnunina og setji sér samræmdar verklagsreglur um meginþætti starfseminnar.