Nauðsynlegt en þó ekki nægilegt skilyrði

Vandaður undirbúningur eykur líkur á því að sameining ríkisstofnana heppnist vel en tryggir það ekki. Slíkur undirbúningur er nauðsynlegt en þó ekki nægilegt skilyrði árangursríkrar sameiningar. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Kristínar Kalmansdóttur, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar, á fjölsóttum morgunverðarfundi sem stofnunin stóð að í dag ásamt fleirum.Fundurinn fór fram á Grand Hótel Reykjavík og bar yfirskriftina „Sameining og endurskipulagning ríkisstofnana. Bestu aðferðir við undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni sameiningar og samþættingu mannauðs“. Aðstandendur fundarins voru fjármála- og efnahagsráðuneytið, Ríkisendurskoðun, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Félag stjórnsýslufræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ. Auk Kristínar fluttu erindi þau Sigurður Helgi Helgason, skrifstofustjóri skrifstofu stjórnunar og umbóta hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu; Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins; og Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Á þriðja hundrað manns mættu á fundinn.

Í erindi sínu „Vel heppnuð sameining krefst meira en góðs undirbúnings“ fjallaði Kristín um úttektir sem Ríkisendurskoðun hefur gert á sameiningum stofnana, helstu niðurstöður þeirra og þá lærdóma sem af þeim má draga. Á tæplega tíu ára tímabili, frá nóvember 2003 til september 2013, sendi stofnunin frá sér samtals 13 skýrslur um sameiningar í ríkisrekstri. Langflestar þeirra lutu einungis að undirbúningi og framkvæmd sameiningar en þó var í nokkrum einnig leitast við að leggja mat á árangur, þ.e. hvort markmið sameiningar hefðu náðst.

Ríkisendurskoðun telur að m.a. megi draga eftirfarandi lærdóma af þeim sameiningum sem stofnunin hefur tekið út:

  • Vandaður undirbúningur eykur líkur á vel heppnaðri sameiningu – nauðsynlegt en þó ekki nægilegt skilyrði.
  • Þegar stofnanir hafa verið sameinaðar að forminu til hefst erfiðið fyrir alvöru – eftirleikurinn skiptir sköpum um hvernig til tekst.
  • Sameining er fjárfesting í öflugri stofnunum og betri nýtingu fjármuna til lengri tíma.