Niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2012

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um framkvæmd og niðurstöður fjárhagsendurskoðunar hjá ríkinu fyrir árið 2012. Bent er á nokkur atriði sem betur mega fara í bókhaldi, reikningsskilum og fjármálastjórn ríkisins.Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Regluleg fjárhagsendurskoðun er viðamesta verkefni stofnunarinnar en tæplega helmingur starfsmanna sinnir því, 21 af samtals 43. Auk þess annast endurskoðunarfyrirtæki vinnu á þessu sviði samkvæmt samningum við Ríkisendurskoðun. Stofnunin gerir grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum fjárhagsendurskoðunar í árlegri skýrslu til Alþingis sem jafnframt er birt opinberlega.
Ábending vegna skuldbindinga utan efnahags
Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins skiptist ríkisreikningur í fimm hluta: A, B, C, D og E. Til A-hluta telst æðsta stjórn ríkisins, dómstólar, ráðuneytin og undirstofnanir þeirra. Til B-hluta teljast ríkisfyrirtæki sem starfa á markaði en eru ekki hlutafélög. Í C-hluta eru ýmsar lánastofnanir, í D-hluta eru fjármálastofnanir og í E-hluta eru hluta- og sameignarfélög sem ríkið á meirihluta í.
Í skýrslunni Endurskoðun ríkisreiknings 2012 kemur fram að með áritun sinni á reikninginn hafi ríkisendurskoðandi staðfest að hann gæfi glögga mynd af afkomu ríkissjóðs, stofnana, fyrirtækja og sjóða í A- til E-hluta ríkissjóðs. Þá staðfesti ríkisendurskoðandi að reikningurinn gæfi glögga mynd af efnahag í árslok og breytingu á handbæru fé á árinu í samræmi við lög um ársreikninga og fjárreiður ríkisins. Áritunin var án fyrirvara en í henni var ábending um skuldbindingar ríkissjóðs sem getið er í skýringu og séryfirliti með reikningnum en eru ekki færðar í efnahag. Hér er m.a. um að ræða ríkisábyrgðir, skuldbindingar vegna innstæðna í fjármálafyrirtækjum og A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).
80 fjárlagaliðir að baki 83% ríkisútgjalda
Heildarútgjöld ríkissjóðs námu 561,7 milljörðum króna á síðasta ári og voru í heild innan fjárheimilda. Tekjurnar námu hins vegar 525,9 milljörðum króna og því varð 35,8 milljarða króna halli á rekstrinum. Bókfærðar eignir ríkissjóðs námu rúmlega 1.113 milljörðum króna og heildarskuldir 1.952 milljörðum króna. Þar af námu lífeyrisskuldbindingar 388,5 milljörðum króna. Eigið fé var neikvætt um 839,2 milljarða króna samanborið við 774,1 milljarða króna í árslok 2011.
Almennt gildir að endurskoðun þarf að vera nægilega umfangsmikil til að endurskoðandinn geti sannreynt hvort reikningar gefi glögga mynd af rekstri og efnahag. Ríkisendurskoðun er fáliðuð og hefur ekki tök á að endurskoða alla liði fjárlaga á hverju ári en þeir voru samtals 431 árið 2012. Stofnunin verður því árlega að velja úr liði til endurskoðunar. Valið byggist m.a. á mati á ætluðu mikilvægi þeirra fyrir niðurstöðu reikningsskilanna í heild en í því sambandi hafa útgjaldafrekustu liðirnir eðlilega mesta þýðingu. Þess má geta að árið 2012 stóðu 80 fjárlagaliðir að baki um 83% ríkisútgjalda.
Um miðjan september sl. höfðu 118 fjárlagaliðir í A-hluta ríkisreiknings hlotið endurskoðun og námu samanlögð útgjöld þeirra tæplega 71% af heildarútgjöldum ríkisins á árinu. Á sama tíma höfðu reikningsskil 13 aðila í B–E-hluta ríkissjóðs verið endurskoðuð. Enn er unnið að endurskoðun nokkurs fjölda stofnana og fjárlagaliða en áætlað er að vinnunni ljúki um næstu mánaðamót. Þá var mikil áhersla lögð á endurskoðun efnahags- og tekjuliða ríkisreiknings.
Nokkrar helstu athugasemdir Ríkisendurskoðunar
Í skýrslunni bendir Ríkisendurskoðun á nokkur atriði sem betur mega fara í bókhaldi, reikningsskilum og fjármálastjórn ríksins. Meðal helstu athugasemda og ábendinga stofnunarinnar eru eftirfarandi:

  • Reikningsskilareglur sem ríkisreikningur byggir á víkja í nokkrum veigamiklum atriðum frá því sem almennt tíðkast. Ríkisendurskoðun telur þessi frávik óæskileg og hvetur ríkisreikningsnefnd, sem veitir fjármála- og efnahagsráðherra ráðgjöf um framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings, til að taka málið til athugunar.
  • Um þessar mundir standa yfir viðræður milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og sveitarfélaga um hvernig gera skuli upp lífeyrisskuldbindingar sem hvíla á stofnunum sem þessir aðilar reka í sameiningu. Að mati Ríkisendurkoðunar er brýnt að niðurstaða fáist í þessar viðræður sem fyrst.
  • Samkvæmt tryggingafræðilegu mati þarf að hækka heildariðgjald til A-deildar lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) úr 15,5% í 20,1% til að tryggja að eignir hennar geti staðið undir bæði áunnum réttindum og reiknuðum framtíðarréttindum sjóðfélaga. Ríkisendurskoðun bendir á að viðbótarútgjöld ríkissjóðs vegna þessa gætu numið allt að 4,5 milljörðum króna á ári.
  • Ríkisendurskoðun leggur til að upplýsingar um stofnfjárloforð sem ríkissjóður hefur veitt vegna nokkurra alþjóðastofnana verði birtar í skýringum með ríkisreikningi. Hér er m.a. um að ræða Endurreisnar- og þróunarbankann (ERBD), Þróunarbanka Evrópu (CEB) og Alþjóðaendurreisnar- og þróunarbankanum (IBRD).
  • Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins skal gera skrá um varanlega rekstrarfjármuni ríkisins og birta með ríkisreikningi. Þetta hefur ekki verið unnt að gera undanfarin ár þar sem fjölmargar stofnanir hafa ekki lokið við að skrá varanlega rekstrarfjármuni sem þær hafa yfir að ráða. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytin til að ganga á eftir því að stofnanir ljúki skráningu svo að hægt verði að birta eignaskrá með ríkisreikningi ársins 2013.
  • Í lögum um tekjuskatt eru nú 52 bráðabirgðaákvæði í gildi. Ríkisendurskoðun beinir því til Alþingis og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að kanna hvort ástæða sé til að endurskoða lögin í heild sinni.
  • Ríkisendurskoðun hvetur ríkisreikningsnefnd til að endurskoða framsetningu markaðra tekna í fjárlögum og ríkisreikningi.

Ýmsar aðrar athugasemdir og ábendingar er að finna í skýrslunni, m.a. samantekt um athugasemdir sem gerðar voru við endurskoðun einstakra stofnana og fjárlagliða (sjá bls. 46–47).