Nýta má betur ríkisframlög til safnamála

Stjórnvöld þurfa að móta heildarstefnu um málefni muna- og minjasafna og auka ber forræði menntamálaráðuneytisins á þessu sviði. Þá ætti að fækka söfnum eða auka samvinnu þeirra til að skapa öflugri rekstrareiningar. Einnig þarf að móta langtímastefnu um fjárveitingar til safnamála og fela einum aðila að samræma úthlutanir. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar „Íslensk muna- og minjasöfn. Meðferð og nýting á ríkisfé‘‘ kemur fram að hér á landi sinna á þriðja hundrað aðilar muna- og minjavörslu. Er þá átt við lista-, náttúru- og menningarminjasöfn en bóka- og skjalasöfn eru undanskilin. Samkvæmt fjárlögum ársins 2009 mun ríkið verja um 1,6 ma.kr. til þessarar starfsemi. Þar af mun tæplega helmingur renna til safna og sýninga sem ekki eru í ríkiseigu.
Ekki hefur verið mótuð heildarstefna um málefni muna- og minjasafna. Ríkisendurskoðun telur að Alþingi eigi að leggja fyrir yfirvöld menntamála að móta slíka stefnu. Meðal annars þurfi að taka afstöðu til þess hvaða safna- og sýningarstarfsemi ríkið eigi sjálft að annast og hvaða starfsemi skuli eftirlátin öðrum. Þá telur stofnunin að færa eigi undir menntamálaráðuneytið nokkrar safna- og sýningarstofnanir sem nú heyra undir önnur ráðuneyti. Hvetja eigi skyld söfn sem starfa á sama landsvæði til að sameinast eða auka samvinnu sína til að skapa öflugri og hagkvæmari rekstrareiningar.
Að mati Ríkisendurskoðunar eru fjárveitingar ríkisins til safna sem ekki eru í ríkiseigu óskipulagðar og ófyrirsjáanlegar. Ekki verði séð að verkefnum sem hljóta styrk sé alltaf forgangsraðað eftir faglegum sjónarmiðum eða mikilvægi. Þá telur stofnunin óeðlilegt að jafn margir aðilar og raun ber vitni úthluti ríkisframlögum til slíkra safna. Til að ráða bót á þessu þurfa Alþingi og yfirvöld menntamála að móta langtímastefnu um fjárveitingar til safnamála og fela einum fagaðila að samræma úthlutanir. Mikilvægt er einnig að settar verði fastmótaðar reglur um styrkveitingar á þessu sviði og eftirlit með ráðstöfun þeirra eflt og samræmt.
Í skýrslunni er að auki lagt til að væntanleg Minja- og safnastofnun Íslands, sem fjallað er um í drögum að frumvarpi til nýrra safnalaga, fái meira vægi í stjórnsýslu málaflokksins en drögin gera ráð fyrir. Þá er lagt til að komið verði á fót sérstöku styrkjakerfi fyrir safna- og sýningarstofnanir sem starfa utan safnalaga.