Nýtt skipurit Ríkisendurskoðunar

Innra skipulagi Ríkisendurskoðunar hefur verið breytt og tók nýtt skipurit gildi 1. apríl sl. Fagleg starfsemi stofnunarinnar fer nú fram á tveimur sviðum: endurskoðunarsviði, þar sem 24 manns starfa, og stjórnsýslusviði, þar sem 14 manns starfa. Fyrrnefnda sviðið annast fjárhagsendurskoðun samkvæmt 8. gr. laga um Ríkisendurskoðun en hið síðarnefnda annast stjórnsýsluendurskoðun samkvæmt 9. gr. sömu laga, auk annarra verkefna.
Þrjár einingar sinna stoðþjónustu: rekstrar- og tölvustoð, sem hefur 5 starfsmenn, lögfræði- og skjalastoð, sem hefur 3 starfsmenn og upplýsinga- og alþjóðastoð sem einn starfsmaður sér um. Þá sinnir skrifstofa ríkisendurskoðanda ýmsum verkefnum sem lúta að eftirliti með stjórnsýslunni auk aðstoðar við ríkisendurskoðanda. Enn fremur munu fimm starfsmenn verða skipaðir í svokallað fagráð en því er ætlað að fjalla um ýmis málefni er varða faglega þróun starfseminnar.
Sviðsstjóri endurskoðunarsviðs er Ingi K. Magnússon viðskiptafræðingur og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs er Kristín Kalmansdóttir viðskiptafræðingur. Rekstrarstjóri er Eyþór Borgþórsson, aðallögfræðingur Lárus Ögmundsson og upplýsingafulltrúi Óli Jón Jónsson. Þá stýrir Jón Loftur Björnsson viðskiptafræðingur skrifstofu ríkisendurskoðanda. Ekki hefur enn verið skipað í fagráð stofnunarinnar en stefnt er að því að gera það fljótlega.