Ómarkviss stefnumörkun í starfsnámi

Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum til að efla starfsnám á framhaldsskólastigi hafa ekki náð tilætluðum árangri.

Að mati Ríkisendurskoðunar hljóta ómarkviss stefnumörkun og ófullnægjandi aðgerðir stjórnvalda að eiga umtalsverðan þátt í því að starfsnám stendur enn höllum fæti.

Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar Starfsmenntun á framhaldsskólastigi: Skipulag og stjórnsýsla. Ný lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008  áttu að verða starfsréttindanámi til framdráttar og opna skólum leið til að efla starfsnám og nám tengt þjónustugreinum. Frá 2008 til skólaársins 2014-15 hefur nemendum verk- og starfsnámsbrauta hins vegar fækkað um 7% og brautskráningum þeirra fækkað um 18%. Frá því að lögin tóku gildi hafa stjórnvöld unnið að ýmsum áætlunum um aðgerðir til úrbóta án þess að þeim hafi verið hrundið í framkvæmd með skipulögðum hætti.

Stjórnsýsla starfsmenntunar á framhaldsskólastigi er umfangsmikil og flókin og er mennta- og menningarmálaráðuneyti hvatt til að einfalda og efla stjórnskipulag þessa náms. Ríkisendurskoðun hvetur m.a. til þess að skipulag og hlutverk starfsgreinaráða verði endurskoðað, vinnubrögð þeirra samræmd og tengsl þeirra og samráð við skóla aukin.  Þá er ráðuneytið einnig hvatt til þess að meta ávinning þess að fela skólum ábyrgð á námi og þjálfun á vinnustað og kanna leiðir til að styrkja starfsemi Vinnustaðanámssjóðs. Að lokum er mennta- og menningarmálaráðuneyti hvatt til að efla náms- og starfsráðgjöf á grunn- og framhaldsskólastigi, m.a. til að draga úr brotthvarfi og óhóflega löngum námstíma.