Opinberir atvinnuþróunarsjóðir herði kröfur til umsækjenda

Ríkisendurskoðun telur að opinberir atvinnuþróunarsjóðir þurfi að herða kröfur til þeirra sem sækja um styrki úr þeim. Umsækjendum verði m.a. gert skylt að greina frá öðrum styrkjum sem þeir þiggja eða hafa þegið úr opinberum sjóðum.Á tveggja ára tímabili fékk einkahlutafélagið Fræðaveitan samtals 2,7 milljónir króna úr þremur opinberum atvinnuþróunarsjóðum: Framleiðnisjóði landbúnaðarins, AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi og Vaxtarsamningi Norðurlands vestra. Um er að ræða svokallaðar upphafsgreiðslur en samkvæmt reglum sjóðanna er hluti styrks ekki greiddur fyrr en skýrslu um framvindu verkefnis hefur verið skilað. Félagið skilaði ekki slíkum framvinduskýrslum og fékk því eingöngu upphafsgreiðslurnar. Hinn 14. desember 2010 endurgreiddi það um helming þess fjár.
Í ábendingu frá Ríkisendurskoðun kemur fram að framgangur annarra verkefna sem þessir sjóðir styrkja virðist almennt vera með eðlilegum hætti og flestum þeirra lýkur innan settra tímamarka. Sjóðirnir fylgja einnig eigin verklagsreglum og greiða ekki út seinni hluta styrkja fyrr en viðeigandi gögnum hefur verið skilað.
Ríkisendurskoðun leggur til að sjóðirnir geri strangari kröfur til umsækjenda en hingað til. Þeim verði gert skylt að greina frá öðrum styrkjum sem þeir fá eða hafi fengið úr opinberum sjóðum. Þá verði samstarfsaðilar umsækjenda beðnir um að staðfesta þátttöku sína í verkefnum. Enn fremur er lagt til að sjóðirnir krefjist endurgreiðslu verði verulegur óútskýrður dráttur á framvindu- eða lokaskýrslum verkefna.