Þetta orðasafn er fyrst og fremst ætlað almenningi til glöggvunar. Skilgreiningar einstakra hugtaka standast því ekki endilega ýtrustu kröfur um fræðilega nákvæmni. Allar ábendingar um orð sem hér ættu að vera, orðskýringar eða annað sem betur mætti fara eru vel þegnar.

Afurð

Afurðir (output) eru allt það sem fyrirtæki eða stofnun framleiðir eða lætur af hendi með starfsemi sinni, hvort heldur vörur eða þjónusta. (Sjá líka aðföng, áhrif, hagkvæmni, skilvirkni.)

Aðföng

Aðföng (input; resources) eru allt það sem fyrirtæki eða stofnun þarf til eigin rekstrar, framleiðslu eða þjónustu, hvort heldur fjármunir, húsnæði, vinnuframlag, þekking, tæki, efni eða annar varningur. (Sjá líka afurð, áhrif, hagkvæmni, skilvirkni.)

Áhrif

Áhrif / útkoma (outcome) er það sem tiltekin starfsemi skilar í formi samfélagslegra gæða. Aðföng eru þá nýtt til að framleiða afurðir sem hafa síðan áhrif á samfélagið. Eðlilegt er að áhrifin tengist endanlegu markmiði stofnana eða fyrirtækja og gefi til kynna hversu vel þeim gangi að sinna hlutverkum sínum. Hugtakið árangur (result) er stundum notað í sömu merkingu. (Sjá líka aðföng, afurð, árangursstjórnun, markvirkni.)

Áhættustjórnun

Áhættustjórnun (risk management) er kerfisbundið verkferli stjórnenda og starfsmanna fyrirtækis eða stofnunar, þar sem leitast er við að greina, meta og bregðast á skynsamlegan hátt við þeirri áhættu sem felst í starfsumhverfi og rekstri stofnana og fyrirtækja. Með áhættustjórnun er reynt að halda áhættu innan þolmarka og stuðla að því að markmið rekstrarins náist.

Árangursstjórnun

Árangursstjórnun er samheiti ýmiss konar stjórnunaraðferða þar sem megináhersla er lögð á að bæta árangur eða frammistöðu tiltekinnar starfsemi með skipulögðum hætti, það er með því að gera réttu hlutina á réttan hátt. Lögð er áhersla á að stofnun eða fyrirtæki setji starfsemi sinni mælanleg og tímasett markmið um árangur, meti eða mæli hvernig tekst að ná þessum markmiðum og bregðist við þeim frávikum sem fram koma með nýjum og endurbættum markmiðum.

Árangursstjórnunarsamningur

Árangursstjórnunarsamningur er samningur sem einstök ráðuneyti gera við þær stofnanir sem heyra undir þau og líta má á sem samstarfs- og samskiptagrundvöll þeirra. Þessir samningar eiga að lýsa hlutverki stofnunar, lagagrundvelli hennar og meginmarkmiðum, mikilvægustu verkefnum og forgangsröðun þeirra. Þá eiga þeir að gera grein fyrir ábyrgð og gagnkvæmum skyldum samningsaðila. Stundum er líka kveðið á um mælikvarða sem nota skuli til að meta árangur starfseminnar.

Áritun endurskoðanda

Áritun endurskoðanda (audit report) er yfirlýsing hans um reikningsskil. Slíkar áritanir eru annaðhvort án fyrirvara, það er þegar endurskoðandi telur að ársreikningur gefi glögga mynd af afkomu og efnahag stofnunar eða fyrirtækis, eða með fyrirvara, það er þegar hann hefur fyrirvara um einhver atriði sem snerta þessa þætti og lesandi þarf að taka tillit til.

Ársreikningur

Ársreikningur er ein tegund reikningsskila. (Sjá reikningsskil.) Hann geymir alla jafna skýrslu stjórnenda og staðfestingu þeirra á ársreikningi, áritun endurskoðanda, efnahagsreikning, rekstrarreikning og yfirlit um sjóðstreymi ásamt skýringum á þessu.

Efnahagsreikningur

Efnahagsreikningur (balance sheet) er eitt af yfirlitum reikningsskila. Hann sýnir eignir fyrirtækis eða stofnunar á tilteknum degi, oftast í árslok, og hvernig þær eru fjármagnaðar, annars vegar með skuldum og hins vegar með eigin fé.

Endurskoðun

Endurskoðun (audit) felur í sér sjálfstæða, hlutlausa og faglega athugun á reikningsskilum, stjórnun eða rekstri stofnana eða fyrirtækja með það að markmiði að láta í ljós óháð álit á þessu, meta hvort fylgt sé lögum og reglum og benda á það sem betur mætti fara. (Sjá líka fjárhagsendurskoðun, stjórnsýsluendurskoðun, endurskoðun upplýsingakerfa, umhverfisendurskoðun, innri endurskoðun.)

Endurskoðun ríkisreiknings

Auk þess að árita ríkisreikning semur Ríkisendurskoðun árlega sérstaka skýrslu um endurskoðun hans. Þar gerir stofnunin grein fyrir endurskoðunarvinnu sinni og setur fram athugasemdir sínar og ábendingar.

Endurskoðun upplýsingakerfa

Sérstaða þessa sviðs endurskoðunar felst í þeirri áherslu sem lögð er á upplýsingatækni. Í eðli sínu beinist endurskoðunin sjálf þó að sömu meginatriðum og fjárhagsendurskoðun (að gögn í upplýsingakerfum séu heildstæð, áreiðanleg og örugg) og stjórnsýsluendurskoðun (að rekstur upplýsingakerfa stuðli að hagkvæmni, skilvirkni og markvirkni í rekstri).

Endurskoðunarstaðlar

Með endurskoðunarstöðlum er einkum vísað til útgefinna reglna félags löggiltra endurskoðenda, alþjóðlegra endurskoðunarstaðla og endurskoðunarstaðla INTOSAI. Í þessum stöðlum er leitast við að skilgreina góða endurskoðunarvenju. Staðlarnir fjalla meðal annars um gæðamál við endurskoðun og aðra vinnu sem endurskoðendur taka að sér. Jafnframt veita þeir endurskoðendunum lágmarksleiðbeiningar við að ákveða umfang endurskoðunar og velja þær aðferðir sem beita skal við að kanna og staðfesta gögn.

Fjáraukalög

Alþingi getur samþykkt fjáraukalög þar sem heimiluð er viðbótarfjárveiting til ráðuneyta, stofnana eða fyrirtækja ríkisins á yfirstandandi almanaksári (fjárlagaári). Slíkar viðbótafjárveitingar eiga að heyra til undantekninga og er þeim oftast ætlað að mæta útgjöldum sem ekki var hægt að sjá fyrir þegar fjárlög voru sett. (Sjá líka fjárlög, lokafjárlög, fjárheimild.)

Fjárhagsendurskoðun

Við fjárhagsendurskoðun (financial auditing) er metið hvort reikningsskil stofnana og fyrirtækja ríkisins – eða ríkisins sem heildar – séu gerð í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju og gefi glögga mynd af rekstrarafkomu á reikningsárinu og efnahag í lok þess. Þá er innra eftirlit stofnana sömuleiðis kannað og að því gætt hvort það tryggi viðunandi árangur. Að lokum er leitast við að kanna og votta áreiðanleika kennitalna um umsvif og árangur stofnana birtist þær með ársreikningi.

Fjárheimild

Fjárheimild er heimild sem stofnunum eða fyrirtækjum ríkisins er veitt í fjárlögum til að skuldbinda ríkissjóð á tilteknu ári. Við hana getur bæst heimild í fjáraukalögum og millifærslur af öðrum fjárlagaliðum. Þá geta einnig bæst við ónotaðar fjárheimildir frá fyrri árum eða dregist frá gjöld umfram fjárheimild fyrra árs. (Sjá líka fjárlög, fjáraukalög.)

Fjárlög

Alþingi samþykkir fjárlög einu sinni á ári þar sem gerð er grein fyrir tekjum ríkisins og gjöldum á komandi almanaksári (fjárlagaári eða fjárhagsári). Í þessum lögum veitir Alþingi ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum ríkisins heimild sína fyrir útgjöldum og ýmiss konar fjárráðstöfunum, svo sem lántöku, ríkisábyrgðum og kaupum og sölu á fasteignum. Í Stjórnarskrá Íslands er kveðið á um að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. (Sjá líka fjáraukalög, lokafjárlög, fjárheimild.)

Fjármálamisferli

Fjármálamisferli (fraud) felur í sér ólögmætt athæfi í því skyni að komast yfir fé eða einhver önnur verðmæti í eigu annarra. Undir fjármálamisferli falla meðal annars þjófnaður, fjárdráttur, röng skýrslugjöf, óréttmæt umboðslaun, mútur, ólöglegt samráð og samningar með ólögmætu samráði.

Framleiðni fjármagns

Framleiðni fjármagns lýsir hlutfallinu milli þeirra fjármuna sem lagðir eru í rekstur stofnunar eða fyrirtækis og þeirra afurða sem reksturinn skilar, þ.e. hversu vel fjármunir eru nýttir til framleiðslu eða þjónustu. (Sjá líka skilvirkni.)

Framleiðni vinnuafls

Framleiðni vinnuafls lýsir hlutfallinu milli fjölda starfsmanna / vinnustunda stofnunar eða fyrirtækis og þeirra afurða sem reksturinn skilar, þ.e. hversu vel vinnuafl er nýtt til framleiðslu eða þjónustu. (Sjá líka skilvirkni.)

Góð endurskoðunarvenja

Góð endurskoðunarvenja (generally accepted auditing standards) er ekki skilgreind í íslenskum lögum en litið er svo á að hún skírskoti til útgefinna reglna félags löggiltra endurskoðenda, alþjóðlegra endurskoðunarstaðla (IFAC) og endurskoðunarstaðla alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI).

Hagkvæmni

Hagkvæmni (economy) lýsir því hvort kostnaður vegna rekstraraðfanga sé eðlilegur miðað við magn þeirra, gæði, nýtingu og þörf. Við athugun á hagkvæmni er meðal annars kannað hvort stofnun eða fyrirtæki gæti aðhalds við starfsmannahald, rekstur húsnæðis eða kaup á vörum og þjónustu, það er hvort kostnaður sé réttlætanlegur miðað við eðli starfseminnar eða kostnað sambærilegs aðila við sinn rekstur.

Innra eftirlit

Með innra eftirliti (internal control) er átt við allar reglubundnar aðgerðir stjórnenda og starfsmanna sem hafa þann tilgang að veita stofnunum eða fyrirtækjum viðunandi öryggi við að ná markmiðum sínum í eftirfarandi þáttum: Skilvirkum og hagkvæmum rekstri, áreiðanlegum fjárhagslegum upplýsingum og að starfsemi sé í samræmi við lög og reglugerðir.

Innri endurskoðun

Innri endurskoðun (internal auditing) er óháð og hlutlaus staðfestingar- og ráðgjafarstarfsemi innan stofnunar eða fyrirtækis sem ætlað er að auka verðmæti rekstrarins, stuðla að því að starfsemin sé í samræmi við lög og reglur og gera stjórnendum kleift að ná settum rekstrarmarkmiðum. Við innri endurskoðun er á kerfisbundinn og agaðan hátt leitast við að meta og lagfæra þá áhættuþætti sem geta valdið tjóni eða skert möguleika fyrirtækis eða stofnunar á hagræðingu eða auknum tekjum.

INTOSAI

Alþjóðasamtök ríkisendurskoðana (INTOSAI) voru stofnuð árið 1953. Markmið þeirra er að miðla hagnýtri reynslu og þekkingu við endurskoðun opinberra aðila milli þeirra stofnana sem sinna henni.

Kennitölur

Kennitölur (lykiltölur) veita ýmiss konar tölulegar og samanburðarhæfar upplýsingar um rekstur stofnana og fyrirtækja, til dæmis framleiðslu eða þjónustu. Þeim er annars vegar ætlað að vera mælikvarði á umsvif og árangur starfseminnar, skilvirkni hennar og hagkvæmni, og hins vegar að nýtast stjórnendum við markmiðssetningu og fjárlaga- og áætlanagerð.

Lokafjárlög

Þegar ríkisreikningur liðins reikningsárs hefur verið endurskoðaður er frumvarp til lokafjárlaga lagt fyrir Alþingi honum til staðfestingar. Í lokafjárlögum er veitt heimild til að gera upp skuldir og ónotaðar fjárveitingar sem ekki eru fluttar milli ára. (Sjá líka fjárlög, fjáraukalög.)

Löggiltur endurskoðandi

Þeim einum er heimilt að kalla sig endurskoðanda sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum til notkunar í viðskiptum, fjármálaráðherra hefur löggilt til endurskoðunarstarfa og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga um endurskoðendur.

Markvirkni

Markvirkni (effectiveness) lýsir því hversu vel hefur tekist að ná settum markmiðum. Við athugun á markvirkni er því leitast við að meta raunveruleg áhrif eða árangur tiltekinnar starfsemi út frá þeim áhrifum sem að var stefnt með henni, til dæmis með lagasetningu eða stefnumótun.

Opinber stjórnsýsla

Sú starfsemi ríkis og sveitarfélaga sem heyrir undir framkvæmdavaldið og felur í sér stjórnunar- og eftirlitsstörf við opinberan rekstur og ákvarðanatöku um rétt eða skyldur manna. (Sjá líka stjórnvald.)

Reikningsskil

Reikningsskil er skilagrein eða skýrsla (ársreikningur eða árshlutareikningur) fyrirtækis eða stofnunar um fjárhagsstöðu, rekstrarárangur og breytingar á fjárhagslegri skipan.

Reikningsskilaráð

Reikningsskilaráð var sett á stofn á grundvelli ársreikningalaga. Því er ætlað að stuðla að góðri reikningsskilavenju hér á landi með útgáfu og kynningu á samræmdum reglum við gerð reikningsskila. Þá skal ráðið gefa álit á því hvað teljist góð reikningsskilavenja á hverjum tíma.

Reikningsskilastaðlar

Reikningsskilastaðlar eru leiðbeinandi reglur sem eiga að aðstoða stjórnendur við gerð ársreiknings, svo að hann gefi glögga mynd af afkomu og efnahag fyrirtækis. Reikningsskilastaðlar hjálpa einnig endurskoðendum og lesendum ársreikninga við að meta upplýsingar sem þar koma fram. Þegar rætt er um reikningsskilastaðla er oftast átt við alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Rekstrarreikningur

Rekstrarreikningur (income statement’) er eitt af yfirlitum reikningsskila.  Hann sýnir tekjur og gjöld fyrirtækis eða stofnunar á tilteknu tímabili (uppgjörstímabili).

Ríkisendurskoðandi

Ríkisendurskoðandi er forstöðumaður Ríkisendurskoðunar. Forsætisnefnd Alþingis ræður hann til sex ára í senn og skal hann hafa löggildingu sem endurskoðandi.

Ríkisendurskoðun

Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis samkvæmt lögum nr 86/1997. Hún skal endurskoða ríkisreikning og reikninga opinberra stofnana og hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Hún sinnir sömuleiðis stjórnsýsluendurskoðun, umhverfisendurskoðun, innra eftirliti og endurskoðun upplýsingakerfa og aðstoðar þingnefndir við störf sem varða fjárhagsmálefni ríkisins.

Ríkisreikningur

Ríkisreikningur er ársreikningur ríkissjóðs. Hann birtir annars vegar heildaryfirlit um fjármál ríkissjóðs og hins vegar sundurliðaðar upplýsingar úr ársreikningum allra ríkisaðila. Þá veitir hann ýmsar hagrænar upplýsingar um starfsemi ríkisins. Ríkisreikningur skiptist í A-hluta (æðsta stjórn ríkisins, ráðuneyti og ríkisstofnanir sem að stærstum hluta eru fjármagnaðar af almennum skatttekjum), B-hluta (ríkisfyrirtæki er starfa á markaði og standa sjálf að öllu eða verulegu leyti undir kostnaði við starfsemi sína), C-hluta (lánastofnanir í eigu ríkisins aðrar en innlánsstofnanir), D-hluta (fjármálastofnanir ríkisins, þar með taldir bankar og vátryggingarfyrirtæki), E-hluta (sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meira).

Skilvirkni

Skilvirkni (efficiency) lýsir sambandi aðfanga (þess sem varið er til rekstrar, hvort heldur fjármuna, vinnuframlags eða varnings) og afurða (þess sem reksturinn skilar sem vörur eða þjónusta). Við mat á skilvirkni er kannað hversu vel aðföng eru nýtt, það er hvort framleiðni eða afköst séu ásættanleg. Oft er þá miðað við starfsemi sambærilegs aðila. (Sjá líka framleiðni fjármagns og framleiðni vinnuafls.)

Stjórnsýsluendurskoðun

Við stjórnsýsluendurskoðun (performance auditing) er leitast við að meta hvort starfsemi stofnana eða fyrirtækja sé hagkvæm og skilvirk og skili þeim árangri eða hafi þau áhrif sem vænst er. Viðfangsefnin geta verið mjög fjölbreytt, allt frá því að kanna hvernig stofnun sinnir tilteknu verkefni sem henni hefur verið falið upp í það að fjalla um hvernig heilum málaflokki á vegum ríkisins er stjórnað. Margvíslegum aðferðum er beitt við matið og í því efni meðal annars sótt í smiðju félagsvísinda, stjórnunar- og viðskiptafræða.

Stjórnsýslustofnun

Stofnun sem fæst aðallega við skipulag og eftirlit með framkvæmd lögboðinna verkefna ríkisins, t.d. með umsýslu fjármála eða því að lögum og reglum sé framfylgt. Dæmi: Ráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra. (Sjá líka þjónustustofnun.)

Stjórnsýsluúttektir

Stjórnsýsluúttektir skiptast yfirleitt í þrjú meginstig: Forkönnun, aðalúttekt og skýrslugerð. Forkönnun miðar að því að skilgreina meginspurningar úttektar og velja hentuga aðferð til að svara þeim. Aðalúttekt miðar að því að safna upplýsingum og greina þær í því skyni að svara meginspurningum úttektar. Skýrslugerð felst í því að draga saman helstu upplýsingar og niðurstöður úttektar í einföldu og aðgengilegu máli.

Stjórnvald

Embætti, stofnun, ráð eða nefnd á vegum ríkis eða sveitarfélaga sem hefur að lögum heimild til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna og annast stjórnsýslu á hverjum tíma. (Sjá líka opinber stjórnsýsla.)

Umhverfisendurskoðun

Umhverfisendurskoðun (environmental auditing) felst einkum í því að kanna og meta margvíslegan árangur á sviði umhverfismála, til dæmis hvernig lögum eða alþjóðasamningum um umhverfismál er framfylgt og þann hag sem slíkir gjörningar hafa í för með sér. Með umhverfisendurskoðun fást upplýsingar um stöðu þessa málaflokks sem á síðustu árum hefur fengið æ meiri athygli.

Þjónustustofnun

Stofnun sem sinnir aðallega þjónustu sem ríkinu er skylt að veita. Dæmi: Sjúkrahús, skólar. (Sjá líka stjórnsýslustofnun.)