Prentun skýrslna hætt í sparnaðarskyni

By 15.10.2009 2009 No Comments

Vegna aðhalds í rekstri hefur Ríkisendurskoðun ákveðið að hætta prentun skýrslna sinna og verða þær framvegis eingöngu gefnar út á rafrænu formi. Ákvörðunin er liður í víðtækum sparnaðaraðgerðum hjá stofnuninni.
Sem kunnugt er áforma stjórnvöld að skera ríkisútgjöld verulega niður á næstu árum til að mæta tekjufalli í kjölfar efnahagshrunsins. Af þessum sökum leita ráðuneyti og ríkisstofnanir nú leiða til að minnka kostnað og bæta skilvirkni.

Ríkisendurskoðun hefur á þessu ári gert ýmsar ráðstafanir til að minnka rekstrarkostnað sinn. Fyrirséð að fjárveitingar til hennar munu dragast verulega saman á næstunni og verður þessu annars vegar mætt með lækkun launa og hins vegar með því að minnka, eftir því sem unnt er, annan kostnað. Jafnframt mun stofnunin leitast við að bæta skilvirkni þannig að niðurskurðurinn komi sem minnst niður á afköstum og þjónustu.

Á hverju ári gefur Ríkisendurskoðun út fjölda skýrslna með niðurstöðum endurskoðunar og annarra eftirlitsverkefna. Hingað til hafa þessar skýrslur bæði verið prentaðar á pappír og birtar á rafrænu formi á heimasíðu stofnunarinnar, www.rikisend.is. Á undanförnum árum hefur lestur skýrslna á heimasíðunni aukist verulega. Sú þróun er í takti við almennar breytingar í samfélaginu en rafræn upplýsingamiðlun hefur í síauknum mæli leyst pappírsútgáfu af hólmi, hvort sem litið er til hins opinbera, fyrirtækja á markaði eða félagasamtaka.

Í ljósi þess sem að framan greinir hefur Ríkisendurskoðun nú ákveðið að hætta prentun skýrslna og verða þær framvegis eingöngu gefnar út á rafrænu formi. Með þessu er vonast til að hægt verði að spara í rekstri án þess að skerða þjónustu.