Ráðuneytið vandi betur til samninga um styrki og innkaup

Undanfarin 16 ár hefur einkahlutafélagið Rannsóknir og greining fengið samtals 158 milljónir króna greiddar úr ríkissjóði fyrir margvíslegar æskulýðsrannsóknir. Ríkisendurskoðun telur ekkert benda til annars en að félagið hafi sinnt þessum rannsóknum með faglegum hætti. Hins vegar gerir stofnunin athugasemdir við það hvernig mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð að viðskiptum við félagið. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytið þurfi að vanda betur til samninga sem það gerir um styrki og kaup á vörum og þjónustu. Þá þurfi að móta heildarstefnu um æskulýðsrannsóknir og kanna hvort hafa megi styrki til þeirra í sérstökum sjóði í umsjá Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís).Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um viðskipti stjórnvalda við einkahlutafélagið Rannsóknir og greiningu. Félagið hefur frá árinu 1999 sinnt fjölmörgum æskulýðsrannsóknum fyrir ráðuneyti og stofnanir. Fram kemur að á árunum 1999–2014 fékk félagið greiddar samtals 158 milljónir króna úr ríkissjóði vegna þessara rannsókna og tengdrar þjónustu. Þar af runnu tæplega 97 milljónir króna frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og stofnunum þess.
Í skýrslunni bendir Ríkisendurskoðun á ýmis atriði tengd þessum viðskiptum sem stofnunin telur að betur hefðu mátt fara. Meðal annars telur stofnunin að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði þurft að vanda betur til samninga sem það gerði við félagið. Eðli þessara samninga hafi ekki alltaf verið ljóst, þ.e. hvort þeir teljist styrktar- eða þjónustusamningar. Þá telur Ríkisendurskoðun að í einu tilviki hefði átt að bjóða út verkefni sem Rannsóknir og greining fékk án útboðs. Stofnunin hvetur ráðuneytið til að vanda betur til þeirra samninga sem það gerir um styrki eða kaup á vörum og þjónustu.
Fram kemur að niðurstöður þeirra æskulýðsrannsókna sem Rannsóknir og greining hafi unnið fyrir stjórnvöld hafi komið mörgum til góða. Ekki einungis ráðuneytum og stofnunum heldur einnig sveitarfélögum, grunn- og framhaldsskólum, fræðimönnum og nemum. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar feli því ekki í sér gagnrýni á störf Rannsókna og greiningar. Ekkert bendi til annars en að félagið hafi sinnt rannsóknum sínum með faglegum hætti. Þrátt fyrir þetta telur Ríkisendurskoðun erfitt að meta hvort fjárframlög ríkissjóðs til þeirra hafi skilað fullnægjandi árangri þar sem hvergi er kveðið á um markmið rannsóknanna og hvernig meta skuli árangur þeirra. Stofnunin hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið því til að móta heildarstefnu um æskulýðsrannsóknir.
Loks hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að tryggja að ferli samninga sem það gerir um styrki eða kaup á vörum og þjónustu sé jafnan opið og gagnsætt. Stofnunin telur að alla jafna eigi að auglýsa styrki og fyrirhuguð verk- eða þjónustukaup til að stuðla að jafnræði milli aðila. Enn fremur telur stofnunin að kanna eigi hvort hafa megi styrki til æskulýðsrannsókna á einni hendi og í sérstökum sjóði sem hugsanlega mætti vista hjá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís).