Ráðuneytin gefi endurmenntun starfsmanna aukið vægi

Ráðuneytin þurfa að halda betur utan um endurmenntun starfsfólks, inntak hennar, umfangi og kostnað að mati Ríkisendurskoðunar.

Með bættri skráningu og aukinni yfirsýn á eðli og umfangi endurmenntunar er betur hægt að meta hvort henni sé sinnt á hagkvæman og skilvirkan hátt og með tilætluðum árangri. Ríkisendurskoðun telur að ráðuneytin þurfi að sýna aukið frumkvæði að endurmenntun starfsfólks og hvetja til hennar með beinum hætti í samræmi við eigin mannauðs- og fræðslustefnu. Í könnun sem Ríkisendurskoðun lagði fyrir háskólamenntað starfsfólk Stjórnarráðs Íslands sagðist einungis um þriðjungur starfsfólks hafa fengið slíka hvatningu. Í um 80% tilvika komi frumkvæði að endurmenntun frá starfsfólkinu sjálfu. Í könnuninni kom einnig fram að um fjórðungur svarenda hafði aldrei farið í starfsmannasamtal. Ríkisendurskoðun hvetur því ráðuneytin til að leggja aukna áherslu á árleg starfsmannasamtöl sem mikilvægan þátt í mannauðsstjórnun þeirra.

Öll ráðuneytin telja sig starfa samkvæmt mannauðsstefnu Stjórnarráðsins. Í könnun Ríkisendurskoðunar kom fram að hvatning, ástundun og áform starfsfólks mældist lægst í þeim þremur ráðuneytum sem ekki hafa mótað sérstaka stefnu á þessu sviði. Ríkisendurskoðun hvetur utanríkisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti til að móta stefnu um endurmenntun og fræðslu og gera starfsþróunaráætlanir í samráði við starfsfólk.