Ráðuneytin þurfa að efla eftirlit sitt með skuldamálum stofnana

Heildarskuldir ríkisstofnana námu rúmum 20 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þá vaxið um 45% á fjórum árum. Eftirliti ráðuneyta með skuldamálum stofnana er mjög ábótavant að mati Ríkisendurskoðunar. Stofnunin hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að stuðla að því að úr þessu verði bætt.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um eftirlit ráðuneyta með skuldum og fjármagnskostnaði ríkisstofnana. Fram kemur að heildarskuldir stofnana námu rúmum 20 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þá vaxið um 45% á fjórum árum. Þar af var meira en þriðjungur skuldir á viðskiptareikningum við ríkissjóð, tæp 40% voru skuldir við birgja og vegna ógreiddra rekstrargjalda og um fjórðungur var vegna lántöku og skulda við aðra ríkisaðila. Skuldir stofnana við ríkissjóð jukust um 85% á fjórum árum en aðrar skuldir um 30%. Þá nam fjármagnskostnaður stofnana 57 milljónum króna á síðasta ári. Hann hefur farið ört minnkandi á undanförnum árum en fór hæst í 600 milljónir króna árið 2009. Algengasta ástæðan fyrir skuldasöfnun ríkisstofnana er langvarandi hallarekstur en þriðjungur þeirra var með uppsafnaðan halla í árslok 2011.

Sérstakar reglur gilda um láns- og reikningsviðskipti ríkisstofnana. Fagráðuneytin eiga að fylgjast með því að stofnanir fylgi þessum reglum, auk þess að hafa almennt eftirlit með fjárreiðum þeirra. Fjármála- og efnahagsráðuneytið á að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og því að önnur ráðuneyti sinni eftirliti með stofnunum sínum. Úttekt Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að eftirliti fagráðuneyta með skuldamálum stofnana sem undir þau heyra er mjög ábótavant. Þá kom fram að fjögur ráðuneyti töldu að eftirlit með þessum málum væri ekki á þeirra ábyrgð heldur Ríkisendurskoðunar. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf fjármála- og efnahagsráðuneytið fylgja því eftir að fagráðuneytin sinni betur en nú stefnumótunar- og eftirlitshlutverki sínu hvað varðar fjárreiður stofnana. Meðal annars þarf að tryggja að reglum um láns- og reikningsviðskipti stofnana sé fylgt.

Ríkisstofnanir greiða ekki vexti af skuldum sínum á viðskiptareikningum við ríkissjóð. Engu að síður þarf ríkissjóður að fjármagna þær og bera kostnað sem af því hlýst. Miðað við markaðsvexti á óverðtryggðum bréfum má áætla að fjármagnskostnaður ríkissjóðs vegna skulda stofnana á viðskiptareikningum hafi numið á bilinu 327–531 milljón króna árið 2011.

Úttekt Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að dæmi eru um að stofnanir fylgi ekki að öllu leyti reglum sem gilda um bókhald þeirra. Ríkisendurskoðun hvetur Fjársýslu ríkisins til að stuðla að því að stofnanir fari að settum reglum til að bókhald gefi sem réttasta mynd af fjárhagsstöðu þeirra á hverjum tíma.