Rætt um nýsköpun á þingi Evrópusamtaka ríkisendurskoðana

Á annað hundrað fulltrúar frá ríkisendurskoðunum Evrópulanda sóttu aðalþing Evrópusamtaka ríkisendurskoðana (EUROSAI) sem haldið var í Haag í Hollandi dagana 16.–19. júní sl. Meginþema þingsins var „nýsköpun í starfsemi ríkisendurskoðana“. Á þinginu voru haldin fjölmörg erindi, málstofur og vinnustofur sem með einum eða öðrum hætti tengdust þessu þema. Ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, sat þingið ásamt alþjóðafulltrúa stofnunarinnar.Í lokaályktun þingsins voru aðildarstofnanir samtakanna hvattar til að leita nýrra og nýstárlegra leiða til að rækja hlutverk sitt og skyldur. Meðal annars voru stofnanirnar hvattar til að beita fjölbreyttari aðferðum en þær gera nú við miðlun niðurstaðna sinna og ábendinga um úrbætur í opinberum fjármálum og rekstri. Þá var í ályktuninni sérstaklega vikið að þeirri þróun sem gætt hefur að undanförnu í átt til aukins gagnsæis í opinberri stjórnsýslu og birtist m.a. í því að æ fleiri stofnanir kjósa að gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á Netinu. Að mati þingsins skapa „opin gögn“ (e. open data) nýja möguleika til að meta framgöngu og frammistöðu stjórnvalda og efla gagnsæi og ábyrgð í stjórnsýslunni. Samtökin munu á næstu árum leggja sérstaka áherslu á að stuðla að nýsköpun í opinberri endurskoðun á starfssvæði sínu, m.a. þróun nýrra aðferða og vinnubragða.

Í erindi sínu á þinginu fjallaði Sveinn Arason ríkisendurskoðandi um viðbrögð Ríkisendurskoðunar við fjármála- og efnahagshruninu hér á landi árið 2008, þ.e. hvaða áhrif hrunið hefði haft á áherslur, nálgun og vinnubrögð stofnunarinnar. Erindið var hluti af málstofu um viðbrögð aðildarstofnana við þeim efnahagslegu erfiðleikum sem gengið hafa yfir álfuna síðustu ár. Auk Sveins fluttu aðstoðarríkisendurskoðandi Bretlands, aðstoðarríkisendurskoðandi Hollands, ríkisendurskoðandi Kýpur og prófessor í hagfræði við Erasmus-háskólann í Rotterdam erindi á málstofunni.

Nánari upplýsingar um þingið má nálgast hér.

Erindi Sveins Arasonar má nálgast hér.
Nánari upplýsingar um EUROSAI má nálgast hér.