Ríkisendurskoðandi kjörinn í stjórn EUROSAI

By 3.06.2005 2005 No Comments

Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi var kjörinn í stjórn Samtaka evrópskra ríkisendurskoðunarstofnana (EUROSAI) á sjötta þingi samtakanna sem haldið var dagana 30. maí til 2. júní í Bonn í Þýskalandi. Í stjórninni sitja 8 manns og var Sigurður kjörinn til næstu sex ára.
Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur tekur sæti í stjórn þessara Evrópusamtaka en Sigurður Þórðarson hefur undanfarin ár verið endurskoðandi þeirra ásamt ríkisendurskoðanda Belgíu. Á þinginu var jafnframt ákveðið að næsti stjórnarfundur samtakanna verði haldinn á Íslandi að ári.

EUROSAI er félagsskapur 45 evrópskra ríkisendurskoðunarstofnana og hefur það meginmarkmið að efla faglega færni þeirra sem sinna opinberri endurskoðun, stuðla að samræmi í störfum þeirra og miðla upplýsingum milli þeirra innbyrðis. Skrifstofa samtakanna er í Madrid.