Ríkisendurskoðun nýtur góðs trausts

By 3.04.2008 2008 No Comments

Ríkisendurskoðun hefur nú í fyrsta sinn látið kanna viðhorf almennings til nokkurra þátta sem varða starfsemi stofnunarinnar. Fram kemur m.a. að hún nýtur trausts um 66% þjóðarinnar.
Könnun Capacent Gallup var gerð í fyrri hluta mars 2008 og voru svarendur 801. Könnunin leiddi m.a. í ljós að um 66% aðspurðra bera traust til stofnunarinnar. Þetta eru jákvæðar niðurstöður þegar hafðar eru í huga niðurstöður úr þjóðarpúlsi Gallup frá sama mánuði. Þar kom m.a. fram að 90% treysta Háskóla Íslands, 80% lögreglunni, 68% heilbrigðiskerfinu, 62% umboðsmanni Alþingis, 61% Ríkissáttasemjara, 52% Þjóðkirkjunni, 42% Alþingi og 39% dómskerfinu.

Könnunin leiddi einnig í ljós að orðið „eftirlit“ kom oftast upp í huga almennings þegar minnst var á Ríkisendurskoðun. Þá sögðust 79% aðspurðra gera miklar kröfur til stofnunarinnar og telja 73% raunar að hún eigi að vera meira áberandi í fjölmiðlum og þjóðfélagsumræðu. Einnig töldu 48% að stofnunin veiti stjórnvöldum ekki nægjanlega mikið aðhald í ríkisrekstri. Að lokum má nefna að um 80% töldu stofnunina íhaldssama.