Ríkisendurskoðun stendur við ábendingu um innkaup löggæslustofnana

Ríkisendurskoðun telur að ekkert hafi komið fram sem breyti niðurstöðum stofnunarinnar um innkaup löggæslustofnana sem finna má í ábendingu hennar frá 27. september sl. Stofnunin stendur því við ábendinguna.

Ríkisendurskoðun hefur sent innanríkisráðuneytinu bréf þar sem ýmsum athugasemdum ráðuneytisins og embættis ríkislögreglustjóra við ábendinguna er svarað. Þar er því einnig fagnað að ráðuneytið skuli taka undir það mat Ríkisendurskoðunar að ekki séu í gildi nógu skýrar reglur um framkvæmd innkaupa hjá lögreglu og að það ætli að beita sér fyrir því að stofnanir þess hagi innkaupum sínum í samræmi við lög.