Ríkislögreglustjóri. Stjórnsýsluúttekt

By 24.10.2006 2006 No Comments

Frá því að embætti ríkislögreglustjóra var stofnað árið 1997 hefur það stuðlað að margvíslegum framförum innan lögreglunnar og beitt sér fyrir ýmsum nýjungum til að bregðast við breyttu eðli og umfangi afbrota hér á landi. Í skipulagi og starfi embættisins má þó benda á nokkur atriði sem betur mættu fara og huga þarf að á komandi árum.
Samkvæmt lögreglulögum hefur embætti ríkislögreglustjóra tvö meginverkefni: Hið fyrra snýr að stjórnsýslu og stjórnun á sviði löggæslu en hið síðara að aðstoð og þjónustu við lögregluembætti landsins, meðal annars við að útvega þeim ökutæki og búnað. Að auki sinnir embættið ýmsum verkefnum þar sem þörf er á sérhæfingu eða miðstýringu á landsvísu, til dæmis rekstur sérsveitar og efnahagsbrotadeildar. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á embættinu er farið í saumana á nokkrum þessara verkefna, auk þess sem staða og hlutverk embættisins eru tekin til umfjöllunar.

Vegna síaukinna verkefna ríkislögreglustjóra undanfarin ár hefur starfsmannafjöldi embættisins þrefaldast frá stofnun þess. Þá hefur raunkostnaður þess fjórfaldast frá 1998 til 2005. Að hluta til hefur þessi kostnaðaraukning leitt til kostnaðarlækkunar hjá öðrum embættum lögreglunnar, til dæmis þegar verkefni hafa verið færð frá þeim til ríkislögreglustjóra. Þá eru þess einnig dæmi að ný verkefni embættisins hafi gert öðrum lögregluembættum kleift að hagræða í rekstri sínum. Kostnaðarþróun innan embættisins bendir þó til þess að stjórnvöld hafi átt erfitt með að sjá fyrir sér framtíðarhlutverk þess og þróun verkefna frá ári til árs. Til þess sama bendir einnig óvenju hátt hlutfall viðbótarfjárheimilda af heildarframlögum til embættisins.

Ríkisendurskoðun telur æskilegt að farið verði yfir stjórnskipulag lögreglunnar í heild og hlutverk ríkislögreglustjóra innan hennar. Í því samhengi bendir stofnunin á tvær meginleiðir sem stjórnvöld gætu farið. Þau gætu annaðhvort falið ríkislögreglustjóra stjórnunarlega ábyrgð á lögreglunni í heild sinni gagnvart dómsmálaráðherra, líkt og gert hefur verið í Danmörku, eða gert embættið að hreinræktaðri stoð- og eftirlitsstofnun sem yrði skipulagslega hliðsett öðrum lögregluembættum. Hvor leið sem farin yrði mætti einfalda stjórnskipulagið og gera það röklegra með breyttri ábyrgðar- og verkaskiptingu.

Samkvæmt viðhorfskönnun Ríkisendurskoðunar telja langflest lögregluembættin að ríkislögreglustjóri sinni vel lögbundinni þjónustu við þau. Ljóst er líka að einn helsti ávinningurinn af stofnun embættisins felst í viðleitni þess til að samræma starfsemi lögreglunnar á ýmsum sviðum og stuðla að markvissari vinnubrögðum hennar. Í því skyni hefur það meðal annars gefið út fjölda verklagsreglna og fyrirmæla. Ríkisendurskoðun telur engu að síður að nokkuð hafi skort á nægjanlegt samráð við lögregluembættin við mótun verklagsreglna, auk þess sem kanna þurfi betur hvernig efla megi og samræma almennt eftirlit með lögregluembættunum. Þá er árangursstjórnun innan lögreglunnar enn ófullburða.

Langstærsta þjónustuverkefni ríkislögreglustjóra er Bílamiðstöðin sem annast rekstur, viðhald og endurnýjun lögreglubíla í landinu. Hún tók til sín um fjórðung af framlögum til embættisins árið 2005. Eftir stofnun miðstöðvarinnar eru útgjöld lögregluembættanna vegna ökutækja mun jafnari en áður var og rekstrarleg áhætta þeirra vegna þessa þáttar minni. Þá er einnig betur tryggt en áður að ökutæki þeirra séu vel búin og í góðu ástandi. Rekstrarerfiðleikar Bílamiðstöðvarinnar hafa þó augljóslega bitnað á getu hennar til að endurnýja ökutæki í samræmi við markmið embættisins og er meðalaldur þeirra nú talsvert yfir viðmiði þess. Ríkisendurskoðun telur að með þessu móti sé verið að velta vandanum á undan sér. Stofnunin telur einnig rétt að endurskoða viðmið embættisins um hámarksaldur og hámarksakstur ökutækja með nákvæmri greiningu á því hvenær rétt sé að endurnýja þau með viðhaldskostnað, endursöluverð og öryggissjónarmið í huga.

Meðal sérverkefna ríkislögreglustjóra er efnahagsbrotadeildin. Undanfarin ár hefur henni gengið betur en áður að afgreiða jafnóðum þau mál sem berast henni. Þetta stafar bæði af fjölgun starfsmanna og því að reynt hefur verið að miða inntöku mála við afkastagetu deildarinnar. Engu að síður var hlutfall lokinna mála af þeim málum sem bárust deildinni á árunum 2001-2005 mun lægra en hjá þeim stofnunum í Noregi og Svíþjóð sem sinna svipuðum verkefnum. Þá var málsmeðferðartími efnahagsbrotamála almennt lengri en talið er eðlilegt í nágrannalöndum okkar. Ríkisendurskoðun telur að íslensk stjórnvöld eigi ekki að sætta sig við slíkt og bendir á nokkrar leiðir til úrbóta, meðal annars mætti breyta fyrirkomulagi á rannsókn alvarlegra skattalagabrota með því að auka samvinnu ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra.