Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík: Mat á árangri

By 28.11.2003 2003 No Comments

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér skýrsluna „Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík. Mat á árangri“. Þar er leitast við að meta árangurinn af sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Landspítala – háskólasjúkrahús (LSH). Í skýrslunni kemur fram að erfitt sé gefa afdráttarlaus svör við því hvort sameiningin hafi skilað tilætluðum árangri þar sem ekki voru sett fram mælanleg markmið fyrir sameininguna. Ljóst sé þó að kostnaðarlega hefur sameiningin ekki skilað ávinningi en faglega séð hefur hún styrkt spítalann. Hann getur þó nýtt enn betur þá möguleika sem nýja fyrirkomulagið veitir og bætt starfsemi sína á ýmsum sviðum. Þá þurfa stjórnvöld að leggja skýrari línur um það hvernig sjúkrahús LSH er ætlað að vera í framtíðinni.
Með sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 var stefnt að því að gera starfsemi þeirra skilvirkari og ódýrari, bæta þjónustuna og auka ánægju sjúklinga með hana og að lokum að styrkja rannsóknir og kennslu innan sjúkrahússins. Ljóst er að þessi meginmarkmið hafa að mörgu leyti náðst. Með sameiningu sérgreina mynduðust faglega sterkar einingar sem gáfu aukna möguleika á sérhæfingu, markvissari og betri þjónustu við sjúklinga og meiri möguleikum á kennslu og vísindastörfum. Þá er umfang þeirrar þjónustu sem starfsfólkið skilar svipað og fyrir sameiningu þrátt fyrir að því hafi fækkað nokkuð. Sumir þættir starfseminnar hafa að vísu dregist saman en á móti kemur að hægt hefur verið að veita ýmsa nýja þjónustu og efla þá sem fyrir var.

Sameiningin hefur hins vegar hvorki leitt til aukinna afkasta né sparnaðar eins og að var stefnt. Þó að biðlistar hafi styst í sumum sérgreinum hafa þeir lengst í öðrum. Þá hefur sameining deilda, fækkun starfsfólks og minni yfirvinna ekki orðið til að draga úr kostnaði. Hann hefur þvert á móti hækkað svo mikið að nú fæst minni þjónusta fyrir hverja krónu en áður var. Þetta má m.a. rekja til mikilla launahækkana á tímabilinu en einnig til aukins kostnaðar vegna tækninýjunga og nýrra lyfja.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er birtur ýmiss konar samanburður á LSH og breskum háskólasjúkrahúsum. Þar kemur m.a. fram að í heild er meðallegutími sjúklinga á LSH mjög svipaður og á breskum sjúkrahúsum og þegar horft er til 10 algengustu sjúkdómsflokka (DRG-flokka) á LSH sést að í 7 tilvikum er legutími á LSH styttri en í Bretlandi. Athugun á kostnaði vegna 28 algengustu sjúkdómsflokka á LSH er einnig viðunandi fyrir spítalann. Í 13 tilvikum veitir LSH ódýrari þjónustu en bresku sjúkrahúsin en í 12 tilvikum dýrari þjónustu. Að lokum má nefna að sjúklingum LSH reiðir almennt betur af eftir aðgerð en sjúklingum samanburðarsjúkrahúsanna. Allt þetta má telja styrkleikamerki fyrir LSH.

Samanburður á því hvernig staðið er að 20 algengum aðgerðum sem framkvæma má á skurðstofum dagdeilda sýnir hins vegar umtalsverðan mun á LSH og bresku sjúkrahúsunum sem bendir til þess að LSH geti aukið hlut dagdeilda í starfsemi sinni. Þá kemur einnig fram að starfsfólk LSH skilar minni afköstum en starfsfólk bresku sjúkrahúsanna. Um 34% færri meðferðir eru á hvert rúm á LSH en hjá samanburðarhópnum og að meðaltali þarf LSH 42% fleiri starfsmenn til að skila jafn mörgum sjúkdómsverkum og á bresku sjúkrahúsunum. Hafa ber þó í huga að ólík samsetning verkefna getur haft áhrif á þennan samanburð, t.d. er mun meira um langlegusjúklinga á LSH en á breskum sjúkrahúsum. Hitt er einnig ljóst að á LSH tengist fleira starfsfólk rekstri og umsýslu en á sambærilegum stofnunum í Bretlandi. Að lokum kemur fram að laun á LSH eru heldur hærri en hjá samanburðarhópnum miðað við magn þjónustu.

Ríkisendurskoðun telur að ekki sé nægilega ljóst hvernig sjúkrahús LSH er ætlað að vera í framtíðinni. Slíkt dregur úr möguleikum stjórnenda sjúkrahússins á markvissri uppbyggingu og stjórnun þess. Nauðsynlegt er að yfirvöld og stjórnendur sjúkrahússins móti því stefnu þar sem helstu spurningum um framtíð þess verður svarað. Ákveða þarf hvert eigi að vera hlutverk þess í heilbrigðiskerfinu, setja því skýr markmið, t.d. um gæði, skilvirkni og magn þjónustu, og þróa hentuga mælikvarða til að meta hvort markmið hafi náðst. Við stefnumótun þarf einnig að ákveða hvernig dag- og göngudeildir sjúkrahússins og sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar skipta með sér verkum.

Ljóst er að fjárheimildir sjúkrahússins hafa ekki aukist að sama marki og útgjöld á undanförnum árum. Vegna þess hefur uppsafnaður halli þess aukist úr 186 milljónum króna við sameiningu í rúmar 840 milljónir. Nauðsynlegt er að tekið sé á þessum vanda. Þá er einnig mikilvægt að hugað sé að húsnæðismálum spítalans en hluti hans er orðinn gamall og óhentugur. Það hefur sömuleiðis sett sameiningunni ákveðin takmörk að meginstarfsemin fer fram á tveimur stöðum. Enn er t.d. starfrækt bráðaþjónusta á tveimur stöðum.