Samkomulag um Listasafn Sigurjóns Ólafssonar verði efnt

Ríkisendurskoðun hvetur Listasafn Íslands til að efna að fullu samkomulag sem gert var árið 2012 milli þess og Sjálfseignarstofnunarinnar Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.

Árið 2012 gaf Sjálfseignarstofnunin Listasafn Sigurjóns Ólafssonar Lista­safni Íslands allar eigur sínar, þ. á m. listaverk, fasteign og lausafé. Í samkomulagi þessara aðila fólst m.a. að Listasafn Sigurjóns Ólafssonar yrði áfram starfrækt sem sérstakt safn. Listasafn Íslands skyldi útvega betri geymsl­ur en fyrir voru undir lista­­verkin og viðhalda ástandi þeirra. Þá skyldi safnið taka við skuld­bind­ing­um vegna starfs­­manna Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og ekkju hans yrði heimilað að búa í íbúð í hús­­næði safns­ins án þess að greiða húsaleigu.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að flest ákvæði samkomulagsins hafi verið efnd. Hins vegar hafi Lista­safn Íslands ekki tryggt öllum þeim listaverkum sem fylgdu gjafa­gern­ingn­­­­um betri geymsl­ur og einungis metið ástand hluta þeirra. Ríkisendurskoðun hvetur Listasafn Íslands til að ráða bót á þessu.

Einnig kemur fram að Ríkisendurskoðun telur að stjórn Listasafns Íslands á málefnum Listasafns Sigur­­­jóns Ólafs­sonar hafi verið veik. Stofnunin hvetur Listasafn Íslands til að marka skýra stefnu um Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og hvernig það hyggst efna að fullu fyrrnefnt samkomulag. Mikilvægt sé að þetta sé gert í góðu samráði við erfingja listamannsins.

Lista­­safn Íslands gerði sérstakan samning við ekkju listamannsins um ráðgjafarþjónustu í tengslum við starfsemi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Aðilar hafa haft mismunandi skilning á inntaki samningsins. Ríkis­­­endur­skoð­un telur að endurskoða verði samninginn með það fyrir augum að skýra ákvæði hans.