Samningar um endurskoðun ríkisbankanna

By 23.01.2009 2009 No Comments

Ríkisendurskoðun hefur samið við þrjú endurskoðunarfélög um að annast endurskoðun nýju ríkisbankanna á tímabilinu 2009-2010. Einnig hefur verið gengið frá ráðningu félaga til að endurskoða stofnefnahagsreikninga tveggja banka og reikninga þeirra fyrir tímabilið frá stofnun til ársloka 2008.
Í október síðastliðnum var Ríkiskaupum falið að bjóða út endurskoðun ríkisbankanna þriggja: Nýja Glitnis hf., Nýja Landsbanka Íslands hf. (NBI) og Nýja Kauþings banka hf. Tekið var fram í útboðslýsingu að hagstæðustu tilboðum yrði tekið en að hver bjóðandi fengi aðeins að endurskoða einn banka og mætti ekki hafa verið síðasti endurskoðandi forvera hans.

Alls bárust fjögur tilboð og var ákveðið að ganga til samninga við KPMG hf. um að endurskoða Nýja Landsbankann (NBI), Deloitte hf. um að endurskoða Nýja Glitni, og Ernst & Young hf. um að endurskoða Nýja Kaupþing banka. Samningarnir gilda fyrir tímabilið 2009-2010 en heimilt er að framlengja þá tvisvar um eitt ár í senn.

Ríkisendurskoðun hefur einnig ráðið endurskoðunarfélög til að endurskoða stofnefnahagsreikninga tveggja af ríkisbönkunum og reikninga þeirra fyrir tímabilið frá stofnun í október 2008 til loka þess árs. PriceWaterhouseCoopers hf. mun annast þessa endurskoðun hjá Nýja Kaupþingi banka og KPMG hf. hjá Nýja Landsbankanum (NBI). Eftir er að ganga frá ráðningu félags til að endurskoða stofnefnahagsreikning Nýja Glitnis. Endurskoðun stofnefnahagsreikninga bankanna og reikninga þeirra fyrir árið 2008 verður unnin sameiginlega af Ríkisendurskoðun og þeim félögum sem ráðin verða til verksins.

Ríkisendurskoðun hefur kynnt sér starf skilanefnda gömlu bankanna sem starfa samkvæmt neyðarlögunum svokölluðu. Hefur stofnunin m.a. átt viðræður við formenn nefndanna um hvernig staðið verði að því að tryggja verðmæti eigna þrotabúanna en ríkissjóður á þar mikilla hagsmuna að gæta. Þá hefur stofnunin fylgst með starfsemi nýju ríkisbankanna og aflað ýmissa upplýsinga er varða skipulag og stjórnun þeirra.