Samskiptaleysi og seinagangur í málefnum sjúkraflugs

Ríkisendurskoðun gagnrýnir seinagang og samskiptaleysi velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis í málefnum sjúkraflugs. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniúttekt um sjúkraflug á Íslandi.

Fjallað var um umfang, fyrirkomulag og þróun sjúkraflugs í skýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2013. Þar var velferðarráðuneyti hvatt til að vanda betur til útboða sjúkraflugs og ljúka vinnu vegna framtíðarstefnu í sjúkraflutningum. Eins var innanríkisráðuneyti hvatt til að taka formlega ákvörðun um aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að sjúkraflugi.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur verið lítill gangur í þeim málum sem varða sjúkra­flug á undanförnum árum. Fyrirhuguðu útboði hefur verið frestað og hvorki liggur fyrir fram­tíðarstefna um sjúkraflug né úttekt á kostum þess og göllum að Landhelgisgæslan komi í meira mæli að því. Þá hafa enn engar nýjar viðræður átt sér stað milli vel­ferð­ar­­ráðuneytis, innanríkisráðuneytis og Landhelgis­gæslunnar um þessi mál. Af þess­um sökum telur Ríkisendurskoðun rétt að ítreka allar ábendingar sínar frá 2013.