Sérstakt vefsvæði með leiðbeiningum fyrir ríkisaðila

Ríkisendurskoðun hefur sett upp sérstakt vefsvæði á heimasíðu sinni þar sem stjórnendur stofnana og fyrirtækja ríkisins geta nálgast ýmsar leiðbeiningar um fjármálastjórn, innra eftirlit og skyld efni.Á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun gefið út margvíslegar leiðbeiningar sem einkum eru ætlaðar forstöðumönnum stofnana og öðrum stjórnendum hjá ríkinu. Með þessu vill Ríkisendurskoðun styrkja fjármálstjórn og rekstur ríkisaðila og stuðla að öflugu innra eftirliti hjá þeim. Sem dæmi má nefna leiðbeiningarrit um leiðir til að tryggja áreiðanleika gagna í upplýsingakerfum, sem birt var árið 2002, og leiðbeiningarrit um leiðir til að afhjúpa og fyrirbyggja fjármálamisferli, sem birt var árið 2006.

Nú hefur stofnunin birt leiðbeiningar um innra eftirlit fyrir stjórnendur stofnana í A-hluta ríkissjóðs. Þar er einkum fjallað um gerð verklagsreglna og verkferla sem eiga að lýsa þeim ráðstöfunum sem gripið er til vegna ýmissa áhættuþátta í starfseminni. Þessar leiðbeiningar eru í raun eins konar „tékklisti“ sem forstöðumenn og aðrir stjórnendur geta notað til að ganga úr  skugga um að virkni innra eftirlits sé eins og til er ætlast. Leiðbeiningarnar og önnur leiðbeiningarrit stofnunarinnar eru birt á sérstöku vefsvæði hér á síðunni. Áhugasömum er bent á að smella á „hnapp“ í dálknum hér til hægri sem merktur er „Fyrir ríkisaðila“.