Skipulagsbreytingar hjá Ríkisendurskoðun

By 30.09.2005 2005 No Comments

Frá og með 1. október í ár mun Óli Jón Jónsson taka við starfi skrifstofustjóra stjórnsýslusviðs hjá Ríkisendurskoðun. Óli Jón (f. 1969) lauk B.A. prófi í sagnfræði og heimspeki frá H.Í. árið 1996, stundaði nám í stjórnmálafræði við Stokkhólmsháskóla 1996-1997 og lauk meistaraprófi í Evrópustjórnmálum frá Háskólanum í Lundi árið 1998. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu 1999-2000, sérfræðingur á stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar 2000-2002 og ráðgjafi og aðstoðarframkvæmdastjóri KOM almannatengsla 2002-2005.
Ráðning Óla Jóns Jónssonar í stöðu skrifstofustjóra hjá Ríkisendurskoðun er liður í breytingum á innra stjórnskipulagi stofnunarinnar sem miða að því að auka skilvirkni í störfum hennar. Eftir breytingarnar heyrir öll fjárhagsendurskoðun undir tvö endurskoðunarsvið og fækkar um eitt frá því sem verið hefur.

Þá hafa verið skipaðir fimm verkefnastjórar í fjárhagsendurskoðun sem munu starfa við hlið skrifstofustjóra og er það nýtt í stjórnskipan stofnunarinnar. Hluti verkefna stjórnsýslusviðs flyst til skrifstofu ríkisendurskoðanda, þ.e. þau sem varða stefnumörkun um verkefnaval og eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Þá mun einn verkefnastjóri starfa við hlið hins nýja skrifstofustjóra stjórnsýslusviðs. Þrátt fyrir þessar breytingar mun fjöldi starfsmanna Ríkisendurskoðunar haldast óbreyttur.