Skógrækt. Lagaumhverfi Skógræktar ríkisins og landshlutabundinna skógræktarverkefna

By 21.12.2004 2004 No Comments

Ríkisendurskoðun telur tímabært að huga að setningu nýrra skógræktarlaga og skapa heildstæða stefnu um skógvernd og skógrækt á vegum hins opinbera. Þá bendir stofnunin á að áætlanir stjórnvalda um að klæða 5% láglendis skógi á 40 árum standist ekki nema með auknum fjárframlögum og að nauðsynlegt sé að uppfæra áætlanirnar til samræmis við veruleikann.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar „Skógrækt. Lagaumhverfi Skógræktar ríkisins og landshlutabundinna skógræktarverkefna“ er liður í umhverfisendurskoðun stofnunarinnar og greinir frá því hvernig íslensk stjórnvöld framfylgja lögum um skógrækt og löggjöf um landshlutabundin skógræktarverkefni.

Núgildandi lög um skógrækt eru frá 1955 og telur Ríkisendurskoðun þau að mörgu leyti úrelt, m.a. vegna breytinga í landnýtingu og búskaparháttum og tilkomu yngri laga. Lögin hafa því litla þýðingu ef frá eru talin almenn ákvæði um meginmarkmið Skógræktar ríkisins.

Síðustu 15 ár hefur skógrækt á vegum hins opinbera færst frá Skógrækt ríkisins til einkaaðila undir umsjón landshlutabundinna skógræktarverkefna. Skógrækt ríkisins leggur nú megináherslu á rannsóknir, umsjón með skóglendi í eigu hins opinbera og ýmiss konar leiðbeiningar og ráðgjöf. Nauðsynlegt er að breyta lögum um skógrækt með hliðsjón af þessu breytta hlutverki stofnunarinnar.

Landshlutabundin skógræktarverkefni mörkuðu viss þáttaskil í sögu skógræktar á Íslandi. Með þeim jukust verulega fjárframlög ríkisins til þessa málaflokks og skógrækt efldist mjög. Um landshlutabundnu verkefnin segir nú í þrennum lögum. Æskilegt er að sú löggjöf verði samræmd, þ.e. að sömu reglur gildi um þau öll.

Almennt hefur framkvæmd landshlutabundnu skógræktarverkefnanna gengið án verulegra vandkvæða og gott skipulag virðist á gagnasöfnun og skráningu á árangri þeirra. Áberandi er þó hversu lítil áhersla hefur enn sem komið er verið lögð á að uppfæra áætlanir verkefnanna. Þá væri æskilegt að leggja enn ríkari áherslu á aðferðir við að mæla árangur þeirra og meta arðsemina.

Ljóst er að umfang landshlutabundinna skógræktarverkefna hefur orðið mun minna en upphaflegar áætlanir stóðu til. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Alþingi hefur veitt minna fé til þeirra en fyrirhugað var þegar lög um þau voru sett. Fyrir vikið er ósennilegt að það markmið landshlutabundnu verkefnanna náist að klæða 5% láglendis skógi á 40 árum. Ríkisendurskoðun telur að þær áætlanir séu í raun úreltar og að nauðsynlegt sé að uppfæra þær til samræmis við veruleikann.