Skref að bættum innkaupum

Ýmsar breytingar eru í farvatninu við innkaup hins opinbera og því ítrekar Ríkisendurskoðun ekki ábendingar sínar til ráðuneytanna frá árunum 2010 og 2013 um annmarka á innkaupastefnu þeirra.

Stofnunin mun engu að síður fylgjast með framvindu mála á komandi misserum.

Með gildistöku laga nr. 123/2015 um opinber fjármál verður kannað hvort aðgreina megi viðskipti í bókhaldi ríkisins eftir eðli þeirra. Lagt hefur verið fram frumvarp til nýrra laga um opinber innkaup þar sem rafræn innkaup fá aukið vægi. Verkefnisstjórn vinnur að því að koma á skipulagsbreytingum í innkaupamálum þvert á ráðuneyti og stofnanir og hefur þegar náð fram sparnaði með sameiginlegum útboðum. Þá á Stefnuráð Stjórnarráðsins að móta viðmið fyrir stefnumótun og áætlanagerð innan Stjórnarráðsins og samhæfa vinnubrögð ráðuneyta. Loks hafa verið sett Viðmið um góða starfshætti fyrir starfsmenn sem annast opinber innkaup.

Í skýrslu sinni Innkaupastefna ráðuneyta árið 2010 beindi Ríkisendurskoðun átta ábendingum til ráðuneytanna sem flestar voru ítrekaðar í eftirfylgniskýrslu árið 2013. Þar voru öll ráðuneyti hvött til að auka vægi innkaupamála  og að beita innkaupastefnu sinni sem virku stjórntæki.  Fjármála- og efnahagsráðuneyti var sérstaklega bent á að efla þyrfti kynningu og eftirlit vegna innkaupastefnu ríkisins, að meta þyrfti árangur reglulega og á hlutlægan hátt, að aðgreina þyrfti viðskipti í bókhaldi eftir eðli þeirra, að samræma þyrfti reglur um notkun rammasamninga, að marka þyrfti skýra stefnu um framkvæmdaáætlun um rafræn innkaup og að setja þyrfti siðareglur um opinber innkaup.

Í svörum ráðuneyta nú kemur fram að þau eru almennt sammála Ríkisendurskoðun um mikilvægi þess að auka vægi innkaupamála. Rammasamningar séu nýttir og ábyrgð starfsmanna vegna innkaupa hafi verið skýrð. Þá hafi einstök ráðuneyti endurnýjað innkaupastefnu sína og nýtt hana sem stjórntæki í samskiptum sínum við stofnanir sínar.