Skýrsla um skuldbindandi samninga umhverfisráðuneytisins

Umhverfisráðuneytið þarf að tryggja að eftirlit þess með framkvæmd skuldbindandi samninga, sem það hefur gert við aðila utan ríkisins, sé að fullu í samræmi við ákvæði þeirra. Þá þarf ráðuneytið að tengja greiðslur til viðsemjenda við frammistöðu þeirra og bæta yfirferð upplýsinga sem frá þeim berast.Á undanförnum árum hafa einstök ráðuneyti gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um að þessir aðilar taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um tvo slíka samninga umhverfisráðuneytisins. Um er að ræða samninga við Skógræktarfélag Íslands og Hekluskóga. Áætlað er að kostnaður vegna þeirra hafi numið um 56,3 milljónum króna á síðasta ári.

Eftirlit ráðuneytisins hefur að mestu verið í samræmi við ákvæði samninganna. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf þó að tengja greiðslur við markmið, frammistöðu viðsemjenda eða framvindu verkefna en slíka tengingu er ekki að finna í umræddum samningum. Þá er ráðuneytið hvatt til bæta yfirferð upplýsinga sem því berast frá viðsemjendunum og tryggja að athugasemdum við þær sé ávallt komið tímanlega á framfæri.

Ríkisendurskoðun ákvað á síðasta ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Birt verður sérstök skýrsla fyrir hvert ráðuneyti og er skýrslan um skuldbindandi samninga umhverfisráðuneytisins sú sjöunda í röðinni.