Skýrsla um skuldbindandi samninga utanríkisráðuneytisins

Utanríkisráðuneytið fylgir föstu verklagi við eftirlit með samningum sem það hefur gert við aðila utan ríkisins. Hins vegar þarf ráðuneytið að skjalfesta verklagsreglur vegna samningamála, samræma ákvæði samninga og tengja greiðslur við markmið, frammistöðu eða framvindu verkefna.Á undanförnum árum hafa einstök ráðuneyti gert samninga við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um að þessir aðilar taki að sér verkefni gegn greiðslum úr ríkissjóði. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um 11 slíka samninga utanríkisráðuneytisins og undirstofnunar þess, Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Áætlað er að kostnaður vegna þeirra hafi numið um 643 milljónum króna á síðasta ári. Þar af nam kostnaður við átta samninga Þróunarsamvinnustofnunar 98%.

Utanríkisráðuneytið fylgir föstu verklagi við eftirlit með samningum sínum og heldur utan um þá í málaskrá. Innan ráðuneytisins starfa vinnuhópar um þróunarsamvinnu sem eru ráðuneytisstjóra til ráðgjafar. Ríkisendurskoðun telur að hópar þessir styðji vel við eftirlit ráðuneytisins með skuldbindandi samningum en til stendur að efla þá. Hins vegar hefur ráðuneytið ekki skjalfest verklagsreglur vegna samstarfssamninga við frjáls félagasamtök og telur Ríkisendurskoðun að úr því þurfi að bæta. Þá telur stofnunin að samræma þurfi ákvæði í samningum utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar.

Í skýrslunni kemur fram að ráðuneytið hafi ekki sett verklagsreglur um eftirlit með framkvæmd samninga Þróunarsamvinnustofnunar. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að ráðuneytið fylgist með því að stofnunin starfi í samræmi við ákvæði samninga og sinni því eftirliti sem þar er kveðið á um. Enn fremur hvetur Ríkisendurskoðun til þess að greiðslur verði, þar sem því verður við komið, tengdar við markmið samninga, frammistöðu verksala eða framvindu verkefna. Loks telur stofnunin brýnt að gerðar séu úttektir á framkvæmd samninga undir lok samningstíma.

Ríkisendurskoðun ákvað á síðasta ári að kanna framkvæmd, eftirlit og eftirfylgni ráðuneyta með samningum sem þau hafa gert við aðila utan ríkisins og skilgreindir eru sem „skuldbindandi samningar“ í fjárlögum. Birt hefur verið sérstök skýrsla fyrir hvert ráðuneyti og er skýrslan um skuldbindandi samninga utanríkisráðuneytisins sú áttunda og síðasta í röðinni. Ríkisendurskoðun fyrirhugar að vinna áfram með samninga ríkisins á næstu misserum en ekki hefur enn verið skilgreint með hvaða hætti það verður.