Skýrsla um starfsemi Ríkisendurskoðunar árið 2009

Út er komin ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2009 þar sem gerð er grein fyrir starfsemi stofnunarinnar á síðasta ári.Samkvæmt 12. grein laga um Ríkisendurskoðun skal á hverju ári semja heildarskýrslu um störf stofnunarinnar á liðnu almanaksári og leggja hana fyrir Alþingi. Í formála ríkisendurskoðanda að Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2009 kemur m.a. fram að stofnunin hafi undanfarna tvo áratugi gagnrýnt ráðuneyti og stofnanir fyrir að virða ekki heimildir fjárlaga. Jafnframt hafi stofnunin lagt til ýmsar breytingar á reglum til að auka aga og aðhaldssemi við mótun og framkvæmd fjárlaga. Þá segir orðrétt: „Á síðasta ári sendu tvær alþjóðastofnanir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD), frá sér skýrslur þar sem í reynd er tekið undir margt af því sem Ríkisendurskoðun hefur haft um þessi mál að segja á síðustu árum. Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í samfélaginu og ríkisrekstrinum tel ég að Alþingi beri skylda til að taka gagnrýni og ábendingar þessara stofnana til alvarlegrar skoðunar.‘‘
Einnig kemur fram í formála ríkisendurskoðanda að stofnunin hafi lagt til breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins, þ.á.m. ákvæðum um meðferð varanlegra rekstrarfjármuna í A-hluta. „Að mati stofnunarinnar kemur til greina að eignfæra slíka fjármuni, líkt og almennar reikningsskilareglur gera ráð fyrir. Einnig þyrfti að huga að ákvæðum um meðferð markaðra tekna og ríkistekna, svo dæmi séu tekin. Ég vænti þess að Alþingi og fjármálaráðherra taki þessar tillögur til skoðunar.‘‘
Auk formála ríkisendurskoðanda er í skýrslunni að finna yfirlit um verkefni og afrakstur stofnunarinnar, mannauð, upplýsingamiðlun og alþjóðleg samskipti á árinu 2009. Þá er birtur útdráttur úr öllum opinberum skýrslum sem stofnunin gaf út á árinu en þær voru samtals 13. Enn fremur eru í skýrslunni birtar þrjár greinar eftir starfsmenn stofnunarinnar: um sérstakt eftirlitsátak sem efnt var til á síðasta ári, um nýjan endurskoðunarhugbúnað sem stofnunin hefur innleitt og um færslu leigusamninga í reikningsskilum opinberra aðila. Loks er í skýrslunni birtur ársreikningur stofnunarinnar.