Skýrsla um starfsemi Ríkisendurskoðunar árið 2013

Í ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2013 er gerð grein fyrir starfsemi stofnunarinnar á síðasta ári, m.a. stefnu og markmiðum, tekjum og gjöldum, mannauði, verkefnum sem lokið var á árinu og árangursmælingum. Í formála sínum að skýrslunni ræðir ríkisendurskoðandi m.a. frumvarp til laga um opinber fjármál og alþjóðlega jafningjaúttekt á vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar sem hófst árið 2011 og lauk á síðasta ári.Samkvæmt 12. grein laga um Ríkisendurskoðun skal á hverju ári semja heildarskýrslu um störf stofnunarinnar á liðnu almanaksári og leggja hana fyrir Alþingi. Í formála sínum að Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2013 fjallar Sveinn Arason ríkisendurskoðandi m.a. um frumvarp til laga um opinber fjármál sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi:

Fyrir það fyrsta felur frumvarpið í sér heildstæða lagalega umgjörð um öll opinber fjármál, þ.e bæði ríkis og sveitarfélaga. Markmiðið er að tryggja að þessir aðilar gangi í takt og að fjármálastjórn hins opinbera sé skilvirk og hagkvæm. Mörkuð verður heildarstefna í opinberum fjármálum í samræmi við tiltekin grunngildi: sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi. Þá verða sett tiltekin töluleg viðmið um opinber fjármál (fjármálaregla), t.d. er gert ráð fyrir að heildarafkoma A-hluta ríkis og sveitarfélaga sé ávallt jákvæð yfir fimm ára tímabil og árlegur halli aldrei meiri en 2,5% af landsframleiðslu. Einnig er mælt fyrir um að heildarskuldir samkvæmt tiltekinni skilgreiningu skuli vera lægri en sem nemur 45% af landsframleiðslu. Enn fremur verður komið á fót sérstöku þriggja manna fjármálaráði sem hefur það hlutverk að fylgjast með því að stefna og áætlanir í opinberum fjármálum séu í samræmi við fyrrnefnd grunngildi og fjármálareglu. Að auki má nefna breytta skilgreiningu fjárheimilda, fækkun fjárlagaliða og skýrari ábyrgð við fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga, svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Fyrir starfsemi Ríkisendurskoðunar skiptir einna mestu máli að reikningsskil ríkisins munu eftir setningu laganna lúta alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir opinbera aðila (International Public Sector Accounting Standards – IPSAS). Í þessu felst stórt framfaraskref því ríkisreikningur mun eftir breytinguna veita ítarlegri upplýsingar um afkomu og fjárhagsstöðu ríkisins og innhalda fyllri skýringar en áður. Það er einlæg von mín að þessar viðamiklu umbætur hljóti brautargengi.

Þá fjallar ríkisendurskoðandi um alþjóðlega jafningjaúttekt á vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar sem hófst árið 2011 og lauk á síðasta ári:

Árið 2011 fór ég þess á leit við hollensku ríkisendurskoðunina, Algemene Rekenkamer, að hún tæki að sér að leiða alþjóðlega jafningjaúttekt á vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar. Viðbrögðin voru jákvæð og í kjölfarið féllust ríkisendurskoðanir Noregs og Svíþjóðar á að taka einnig þátt í úttektinni. Ákveðið var að skipta verkefninu í tvo sjálfstæða áfanga. Þeim fyrri, úttekt á vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar við stjórnsýsluendurskoðun, var lokið á árinu 2012 en þeim síðari, úttekt á vinnubrögðum við fjárhagsendurskoðun, var lokið á síðasta ári. Skýrslur beggja áfanga eru birtar á heimasíðu stofnunarinnar, www.rikisend.is, á ensku og íslensku. Þegar á heildina er litið eru niðurstöðurnar fremur jákvæðar fyrir stofnunina og starfsmenn hennar. Þó er bent á ýmis atriði sem betur mættu fara og hefur stofnunin þegar brugðist við mörgum þessara ábendinga og undirbýr viðbrögð við öðrum. Ég tel að jafningjaúttektin hafi þegar skilað og muni þegar fram í sækir skila stofnuninni miklum ávinningi. Fjallað er um seinni áfanga hennar í grein á bls. 40‒43 í þessari skýrslu.

Auk formála ríkisendurskoðanda er í skýrslunni fjallað um helstu viðfangsefni og verkefni stofnunarinnar á árinu 2013, tekjur og gjöld, vinnuframlag starfsmanna, árangursmælingar, alþjóðleg samskipti o.fl. Þá er birtur útdráttur úr nokkrum opinberum ritum sem stofnunin gaf út á árinu en þau voru samtals 40. Enn fremur eru í skýrslunni birtar þrjár greinar eftir starfsmenn stofnunarinnar: um seinni áfanga alþjóðlegrar jafningjaúttektar á vinnbrögðum Ríkisendurskoðunar, um breytingar á samstarfi ríkisendurskoðana Norðurlanda og um endurskoðun og siðferði. Loks er ársreikningur stofnunarinnar birtur í heild í sinni ásamt skýringum.