Skýrsla um starfsemi Ríkisendurskoðunar árið 2014

Í skýrslunni er m.a. fjallað um rekstur Ríkisendurskoðunar á síðasta ári, mannauðsmál og verkefni sem unnið var að. Í formála ræðir ríkisendurskoðandi m.a. fyrirhugaðar breytingar á lögum um starfsemi stofnunarinnar.Samkvæmt 12. grein laga um Ríkisendurskoðun skal á hverju ári semja heildarskýrslu um störf stofnunarinnar á liðnu almanaksári og leggja hana fyrir Alþingi. Í formála sínum að Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2014 fjallar Sveinn Arason ríkisendurskoðandi m.a. um frumvarp til nýrra heildarlaga um starfsemi stofnunarinnar sem nú er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í því felast ýmis nýmæli og breytingar miðað við gildandi lög. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að ríkisendurskoðandi verði kjörinn af Alþingi en samkvæmt gildandi lögum er hann ráðinn af forsætisnefnd. Þá eru lagðar til skýrar reglur um málsmeðferð hjá stofnuninni og um upplýsingagjöf hennar til stjórnsýslu og Alþingis, svo dæmi séu nefnd. Í máli ríkisendurskoðanda kemur fram að stofnunin fagni frumvarpinu og þeim breytingum sem það felur í sér en geri jafnframt athugasemdir við einstök atriði þess:

Það er von mín að frumvarpið fái vandaða umræðu og umfjöllun í nefndinni og síðar í þingsal og að takast muni að afgreiða það fyrir þinglok.

Auk formála ríkisendurskoðanda er í skýrslunni fjallað um helstu viðfangsefni og verkefni stofnunarinnar á árinu 2014, tekjur og gjöld, menntun og aldursskiptingu starfsmanna, útgefnar skýrslur, alþjóðleg samskipti o.fl. Þá er birtur útdráttur úr nokkrum opinberum ritum sem stofnunin gaf út á árinu en þau voru samtals 40. Enn fremur eru í skýrslunni birtar tvær greinar eftir starfsmenn stofnunarinnar. Loks er ársreikningur stofnunarinnar birtur í heild í sinni ásamt skýringum.