Skýrsla um starfsemi Ríkisendurskoðunar árið 2015

Í ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2015 er fjallað um helstu verkefni stofnunarinnar á síðasta ári, útgefin rit, tekjur og gjöld, mannauðsmál o.fl.

Samkvæmt 12. grein laga um Ríkisendurskoðun skal á hverju ári semja heildarskýrslu um störf stofnunarinnar á liðnu almanaksári og leggja hana fyrir Alþingi. Í formála sínum að Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2015 gerir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi m.a. ný heildarlög um opinber fjármál að umtalsefni. Lögin tóku gildi um síðustu áramót og fela í sér margháttaðar umbætur á fjármálastjórn hins opinbera hér á landi. Ríkisendurskoðandi segir miklu skipta að innleiðing laganna takist vel:

„Vissulega er hér um að ræða flókið og viðamikið verkefni og takmarkaður tími er til stefnu. Brýnt er að ljúka vinnu við grunnþætti eins og breytt fyrirkomulag fjárlagagerðar og breytingar á fjárhags- og uppgjörskerfum. Einsýnt er að allir hagsmunaaðilar þurfa að setja þessa vinnu í forgang á næstu mánuðum til þess að unnt verði að uppfylla ákvæði laganna.“

Auk formála ríkisendurskoðanda er í skýrslunni fjallað um helstu viðfangsefni og verkefni stofnunarinnar á árinu 2014, tekjur og gjöld, mannauðsmál, útgefin rit, alþjóðleg samskipti o.fl. Enn fremur eru í skýrslunni birtar þrjár greinar eftir starfsmenn stofnunarinnar. Loks er ársreikningur stofnunarinnar birtur í heild í sinni ásamt skýringum.