Sólheimar í Grímsnesi

By 13.05.2003 2003 No Comments

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér nýja skýrslu um þjónustuheimili fatlaðra að Sólheimum í Grímsnesi, (apríl 2003). Þar er greint frá niðurstöðum úttektar á því hvernig forsvarsmenn Sólheima ráðstöfuðu framlögum ríkisins til stofnunarinnar á árunum 1996-1999. Fram kemur að fjármunum hefur að verulegu leyti verið varið á annan hátt en kveðið er á um í þjónustusamningi Félagsmálaráðuneytis og Sólheima frá 1996. Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöldum beri að kanna hvaða þýðingu þetta hefur þegar horft er til réttinda og skyldna samningsaðila.
Hin nýja úttekt er sjálfstætt framhald af stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá árinu 2002, Sólheimar í Grímsnesi (apríl 2002). Þar kom m.a. fram að fjárveitingu ríkisins til staðarins á árunum 2000 og 2001 var að stórum hluta ráðstafað á annan hátt en gert var ráð fyrir í þjónustusamningnum, enda töldu forsvarsmenn þjónustuheimilisins sig óbundna af honum þar sem þeir hefðu sagt honum upp. Félagsmálaráðuneytið hafnaði hins vegar þessari túlkun á þeirri forsendu að samningurinn hefði síðar verið framlengdur til eins árs í senn. Meðal annars vegna samskipta þessara málsaðila undanfarin ár og tómlæti þeirra við að rifta samstarfi með ótvíræðum hætti leit Ríkisendurskoðun svo á að stjórnendur Sólheima hefðu átt að taka mið af samningnum. Sú skoðun er óbreytt.

Úttekt Ríkisendurskoðunar nú er unnin upp úr gögnum sem lögð voru fram í bókhaldi Sólheima árin 1996-1999 en til hliðsjónar var hafður áðurnefndur þjónustusamningur félagsmálaráðuneytisins og Sólheima. Þar er m.a. kveðið á um það hversu há framlög ríkisins skuli vera og hvernig þeim skuli varið í meginatriðum. Gert er ráð fyrir (a) sérgreindu fram­lagi til búsetu fatlaðra, (b) framlagi til dagvistunar- og atvinnu­mála, (c) til þjónustu við byggðar­kjarna og (d) til yfirstjórnar. Auk þess skal ríkið greiða afgjald vegna afnota af húsnæði, lausafjármunum og heitu vatni.

Þegar sundurliðun fjárveitingar fyrir árin 1996-1999 er borin saman við raun­veru­lega skipt­ingu kemur í ljós umtalsverður munur. Stór hluti þess fjár sem samkvæmt samningnum átti að renna til búsetu við fatlaða var notaður til umfangsmeiri atvinnurekstrar, meiri stofnkostnaðar við húsnæði og meira viðhalds á staðnum en samningurinn gerði ráð fyrir. Samkvæmt fjárveitingu skyldi 61% af fjárveitingu ríkisins renna til búsetu fatlaðra en í raun runnu einungis 39% fjárins til þessa liðar. Aftur á móti var 43% af fjárveitingu ríkisins varið til a-d liða sem þó áttu einungis kröfu um 31% fjárins. Ríkisendurskoðun telur að á árabilinu 1996-2001 hafi um 158 m.kr. af fjárveitingu ríkisins til þjónustu við fatlaðra að Sólheimum verið varið á annan hátt en þjónustusamningurinn gerði ráð fyrir.

Ríkisendurskoðun tekur ekki afstöðu til þess hvort þjónustusamningurinn sé best til þess fallinn að mæta þörfum fatlaðra íbúa staðarins. Hún telur hins vegar ótækt að þeir sem taka að sér lögbundna þjónustu fyrir hönd ríkisins og gera sérstakan samning þar að lútandi breyti að eigin vild hvernig fjármunum er ráðstafað og án samþykkis þeirra sem kaupa þjónustuna. Að mati Ríkisendurskoðunar ber stjórnvöldum að kanna hvaða áhrif þessi ráðstöfun hefur á réttindi og skyldur aðila, skv. samningum og réttarstöðu að öðru leyti. Í þessu sambandi skal vakin athygli á 9. gr. þjónustusamn­ingsins sem kveður á um að gerðardómur skuli leysa úr ágreiningi samningsaðila.