Sólheimar í Grímsnesi

By 30.05.2002 2002 No Comments

Skýrsla þessi er úttekt á því hvernig þjónustuheimili fatlaðra að Sólheimum í Grímsnesi ráðstafaði fjárframlögum ríkisins á árunum 2000 og 2001. Ríkisendurskoðun telur að á þessum tveimur árum hafi um 67 m.kr. verið varið á annan hátt en gert var ráð fyrir í samningi félagsmálaráðuneytisins og Sólheima frá árinu 1996. Bent er á að þetta bitni á þjónustu við fatlaða íbúa staðarins, m.a. komi skortur á fagmenntuðu starfsfólki niður á gæðum hennar. Í skýrslunni er bent á að nokkur óvissa ríki um gildi samningsins. Ríkisendurskoðun telur þó eðlilegt að félagsmálaráðuneytið kanni hvort ríkið eigi lögvarin réttindi vegna framlaga sinna til Sólheima. Jafnframt telur stofnunin brýnt að stjórnvöld tryggi að þau skilyrði sem þau setja fyrir fjárframlögum sínum vegna þjónustu við fatlaða séu skýr og að séð verði til þess farið sé eftir þeim.

Sólheimar eru sjálfseignarstofnun þar sem um fjörutíu fatlaðir einstaklingar búa og stunda atvinnu. Samkvæmt núgildandi skipulagsskrá er tilgangurinn með rekstri Sólheima að starfrækja heimili, þjónustumiðstöð og verndaða vinnustaði fyrir fatlaða. Sólheimar fá árlega fjárframlag úr ríkissjóði til að standa undir kostnaði við þjónustu sem veitt er fötluðum íbúum staðarins. Í ljósi þess ákvað Ríkisendurskoðun að kanna hvernig framlögum ríkisins til Sólheima hefur verið ráðstafað á undanförnum árum og leggja mat á gæði þeirrar þjónustu sem fötluðum er veitt. Stjórnendur Sólheima fengu drög skýrslunnar til umsagnar og í henni er gerð ítarleg grein fyrir sjónarmiðum og andmælum þeirra við athugasemdum og gagnrýni Ríkisendurskoðunar.

Ríkisendurskoðun telur að skortur á starfsfólki, einkum starfsfólki með fagmenntun á sviði þroskahömlunar, komi niður á gæðum þeirrar þjónustu sem fötluðum íbúum Sólheima er veitt. Í skýrslunni er bent á að þjónustan hafi ekki verið í samræmi við þjónustusamning sem gerður var milli framkvæmdastjórnar Sólheima og félagsmálaráðuneytisins árið 1996. Samningurinn byggði á lögbundnu mati á þörf fatlaðra íbúa staðarins fyrir umönnun og stuðning. Ríkisendurskoðun telur að samkvæmt ákvæðum samningsins hafi verið gert ráð fyrir um 34 stöðugildum vegna umönnunar og stuðnings við fatlaða á heimilum þeirra á Sólheimum. Hins vegar hafi stöðugildi vegna þessa þáttar starfseminnar í reynd verið um helmingi færri á árunum 2000 og 2001. Bent er á að þeim fjármunum sem með þessu móti hafi sparast hafi verið varið til mun umfangsmeiri atvinnurekstrar og uppbyggingar á Sólheimum en ríkið hafi fallist á að greiða samkvæmt þjónustusamningnum. Athugun Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að sú fjárhæð sem ekki var ráðstafað í samræmi við forsendur samningsins nam samtals um 67 m.kr. á árunum 2000 og 2001.

Um mitt ár 1996 sagði framkvæmdastjórn Sólheima umræddum þjónustusamningi upp og hefur samningur milli aðila ekki verið formlega í gildi frá 1. janúar 1997. Engu að síður hefur félagsmálaráðuneytið haldið áfram að greiða fyrir þjónustu við fatlaða á grundvelli samningsins. Í skýrslunni kemur fram að skilningur aðila á gildi samningsins sé ólíkur. Ráðuneytið líti svo á að framlög til Sólheima miðist við forsendur hans en framkvæmdastjórn Sólheima líti svo á að frá ársbyrjun 1998 hafi enginn samningur verið í gildi og að henni hafi verið óskylt að taka mið af forsendum fyrri samnings við ráðstöfun framlaga.

Í skýrslunni er bent á að í ljósi atvika og þess hvernig samskiptum aðila hefur verið háttað megi leiða að því rök að samningurinn sé enn í gildi. Að mati Ríkisendurskoðunar er afstaða framkvæmdastjórnar Sólheima til samningsins umdeilanleg. Telur stofnunin eðlilegt að félagsmálaráðuneytið kanni réttarstöðu sína og hvort ríkið kunni að eiga lögvarin réttindi vegna framlaga sinna til Sólheima. Jafnframt sé brýnt að fá úr því skorið hvort sjálfseignarstofnanir sem fá framlag úr ríkissjóði til að sinna lögbundnum verkefnum ríkisins hafi óbundnar hendur um ráðstöfun framlagsins ef ekki er í gildi sérstakur samningur um hvernig því skuli varið. Þá þurfi ráðuneytið að tryggja betur en gert hefur verið að skilyrði sem veitt eru fyrir fjárframlögum til aðila sem veita fötluðum þjónustu, séu þeim ljós og að þau séu virt.

Í skýrslunni eru gerðar margvíslegar athugasemdir við ýmsa þætti í stjórnun og rekstri Sólheima. Til dæmis er gagnrýnt hvernig húsaleiga sem fötluðum íbúum Sólheima var gert að greiða á árunum 2000 og 2001 var ákvörðuð. Þá er það mat Ríkisendurskoðunar að upphæð launagreiðslna til fatlaðra íbúa séu í lægri kantinum miðað við aðra verndaða vinnustaði enda þótt líta beri til þess að félagsmálaráðuneytið hefur ekki sett reglur um þau lágmarkskjör sem fatlaðir starfsmenn slíkra vinnustaða eiga að njóta.